Kardashian-Jennar systurnar eru þekktar fyrir að tjalda öllu til þegar kemur að veisluhöldum og taka til að mynda jólum, páskum og öllum hátíðum þar á milli mjög hátíðlega. Hrekkjavakan er þar engin undantekning og eru systurnar þekktar fyrir að klæða sig í íburðarmikla búninga, skreyta frá gólfi upp í loft og fagna fram á rauða nótt.

Sú yngsta, athafnakonan Kylie Jenner, tók í gær þjófstart á Hrekkjavökuna, sem haldin er hátíðleg þann 31. október. Klæddust mæðgurnar Kylie og Stormi sig upp í búninga sem beinagrindur og fögnuðu ásamt vinum og vandamönnum.

Hrekkjavakan í ár er sú fyrsta sem hin níu mánaða Stormi, dóttir Kylie og rapparans Travis Scott, heldur upp á og gera má ráð fyrir því að Kylie sé spennt að kynna þá stuttu fyrir drungalegustu hátíð ársins. Í vikunni deildi samfélagsmiðlastjarnan mynd af Stormi, á miðjum akri fullum af graskerum þar sem sú litla situr kampakát og virðir fyrir sér graskerin. 

View this post on Instagram

first pumpkin patch 🎃

A post shared by Kylie (@kyliejenner) on

Í gær bauð Kylie svo, sem fyrr segir, til veislu og virtust veislugestir klæðast sama klæðnaði og þær mæðgur, nokkurskonar beinagrindarsamfesting, ef svo má að orði komast. Ef marka má færslur Kylie á Instagram var þar glatt á hjalla, en ekki fylgdi sögunni hvers konar góðgæti veislugestir snæddu. Kylie hefur í mörg ár, líkt og systur sínar, verið mjög virk á samfélagsmiðlum. Þar geta aðdáendur hennar fylgst með því sem á daga hennar drífur og séð Stormi litlu vaxa úr grasi.

Á síðasta ári var hins vegar eins og samfélagsmiðlastjarnan hefði horfið sporlaust. Sögusagnir fóru hratt af stað um að Kylie ætti von á barni en hefði kosið að halda þunguninni leyndri. Í febrúar lét stjarnan svo loks í sér heyra, þegar hún birti hjartnæmt myndband og greindi aðdáendum sínum frá því að hún væri orðin móðir. Dóttirin Stormi var fædd. 

Vegna þess hve huldu höfði stjarnan fór um þetta leyti í fyrra er ekki vitað hvort hún klæddi sig upp fyrir Hrekkjavökuna. Fyrir tveimur árum updubbaði Kylie sig hins vegar sem söngkonuna Christina Aguilera og fór þannig í teiti. 

Það má því gera ráð fyrir því að stjarnan ætli að tjalda öllu til í ár og leyfi vonandi okkur hinum að fylgjast með.