Rithöfundarnir og vinkonurnar Auður Jónsdóttir og Kamilla Einarsdóttir bjóða bókaunnendum með sér í bókmenntagöngu um miðbæinn fimmtudagskvöldið 9. júní. Gangan hefst í Borgarbókasafninu Grófinni og verða þátttakendur leiddir um skáldlega króka og kima miðbæjarins.

„Allir eiga náttúrlega von á góðu þegar Auður er með af því hún er ógeðslega fyndin. Pælingin okkar er að það er svo gaman að hitta fólk sem hefur gaman af bókum. Af því þetta er svolítið einmanalegt áhugamál, maður er alltaf bara einn eða í mesta lagi að hitta aðra rithöfunda,“ segir Kamilla.

Saman ætla þær stöllur að sýna þátttakendum uppáhalds leynistaði sína í miðbænum og kynna þá fyrir nokkrum leynigestum. Fram kemur í tilkynningu Borgarbókasafnsins að ferðin verði „hugvíkkandi á safaríkan hátt“.

„Við ætlum að stoppa á stöðum úr bókum sem okkur finnast skemmtilegar og hafa haft áhrif á okkur. Í leiðinni sýni ég staði sem koma fyrir í bókunum hennar Auðar og mig langar að spyrja hana um. En svo bara látum við kylfu ráða kasti,“ segir Kamilla.

Gangan er hluti af viðburðadagskrá sem Borgarbókasafnið, Borgarsögusafn Reykjavíkur og Listasafn Reykjavíkur standa fyrir á fimmtudagskvöldum yfir sumartímann. Þátttaka er ókeypis og fer gangan fram á milli 20 og 21.30 en ekki er útilokað að hún teygi sig inn í nóttina.

„Kannski verða einhverjir skandalar sem enda í næstu bókum,“ segir Kamilla, kímin að vanda.