Á hátíðinni sem kallast RVK Feminist Film Festival verða eingöngu sýndar kvikmyndir eftir kvenkyns leikstjóra. Lea segir að boðskapur hátíðarinnar sé einfaldur, að jafna kynjahalla þegar kemur að leikstjórn kvikmynda. „Efni kvikmyndanna er ekki endilega femínískt, þetta er aðallega spurning um að fá sjónarhorn konu,“ segir hún.

„Ég held að konur séu oft uppteknar af því að allt þurfi að vera fullkomið og það kannski spili inn í að þær leikstýri ekki eins mikið og karlmenn. Þess vegna einmitt vantar okkur fleiri fyrirmyndir á þessu sviði. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir ungar konur að sjá fyrirmyndir í bransanum.“

Þegar Lea kom heim úr námi fannst henni hana vanta tengslanet á Íslandi þar sem hún lærði úti. Hún fór að leita fyrir sér og komst á snoðir um Stockholm Feminist Film Festival og setti sig í samband við stjórnanda þeirrar hátíðar. „Sú hátíð er í raun fyrirmyndin að þessari hátíð sem verður haldin hér,“ segir Lea.

Lea segir að í raun sé það manninum hennar að þakka að hún hafi farið út í að halda þessa hátíð. „Hann sagði mér að kýla bara á það. Ég var líka kannski komin með sjálfstraust til þess að láta af þessu verða en hef fengið mikla hvatningu og stuðning frá fjölskyldu og vinum.

Eins og stendur munum við sýna sjö bíómyndir í Bíói Paradís en við ákváðum nýlega að sameinast Nordisk Film Fokus sem Norræna húsið heldur. Þau ætluðu líka að sýna myndir eingöngu eftir kvenleikstjóra í ár og stungu upp á að við myndum slá þessum hátíðum saman. Það þýðir að við fáum enn fleiri myndir eftir konur svo það er virkilega gaman að hafa getað sameinast þeim.“

Myndirnar sem sýndar verða í Norræna húsinu koma frá Norðurlöndunum en í Bíói Paradís verða meðal annars myndir frá Japan, Taílandi, Póllandi og Suður-Ameríku. „Þetta eru sem sagt myndir héðan og þaðan eftir ólíkar konur frá ólíkum heimshornum,“ segir Lea „Við eigum von á að minnsta kosti tveimur leikstjórum til landsins og mögulega fleirum í tengslum við Norræna húsið og norrænu myndirnar. Elísabet Ronaldsdóttir verður sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar.“

Stuttmyndakeppni

Á hátíðinni sem fer fram dagana 16.-19. janúar 2020 verður ýmislegt annað í boði en hefðbundnar kvikmyndasýningar. Á Hótel Marina verður ýmiss konar dagskrá. Þar verður svokallað „network“ partí fyrir konur í kvikmyndabransanum til að hittast og spjalla saman. „Mögulega skapast eitthvert samstarf milli landa út frá því,“ segir Lea.

Þá verður haldin handritssmiðja sem kallast Fabúlera. „Við fáum til okkar mjög flotta konu frá Bandaríkjunum. Hún heitir Gabrielle Kelly, er handritshöfundur og vinnur hjá American Film Institute. Hún ætlar að kenna á smiðjunni“

Einnig standa skipuleggjendur hátíðarinnar fyrir stuttmyndasamkeppni undir yfirskriftinni „Systir“. „Við veitum verðlaun fyrir bestu íslensku og bestu erlendu stuttmyndina. Verðlaunagripirnir eru búnir til af tveimur konum, Hallgerði Kötu Óðinsdóttur sem er járnsmiður og Gerðu Kristínu Lárusdóttur sem er gullsmiður. Þetta er sem sagt verðlaunagripur og hálsmen og hönnunin á þessum gripum tengist. Ég var bara að sjá gripinn um daginn og hann er mjög flottur,“ segir Lea.

Lea segir að mikill fjöldi stuttmynda hafi þegar borist í keppnina og fimm kvenna dómnefnd muni velja sigurvegarana.

Kynning á hátíðinni fer fram á Hótel Marina í dag og hefst hún klukkan 17.00. „Við höfum ekki enn getað sett upp lokadagskrá. Það er alltaf eitthvað nýtt að poppa upp en við ætlum að kynna það sem er öruggt að verði. Svo verðum við líka með nútímadanssýningu, ljóðalestur og ein ætlar að syngja frumsamin lög svo það verður góð stemning,“ segir Lea.

Hún bætir því við að lokum að mikið af góðu fólki komi að hátíðinni með henni. Nara Walker er listrænn stjórnandi, Sonia Sars er samhæfingarstjóri, Marta Kolbuszewska er almannatengill og efnissmiður og Katla Gunnlaugsdóttir sér um samfélagsmiðla. Tæknimaður er Alexander Hrafn Ragnarsson og Róbert Stefánsson sér um vefstjórn ásamt því að vera grafíker.