Guðni Rúnar Gunnarsson bjó í Hafnarfirði til sex ára aldurs en flutti þá í Kópavog þar sem hann bjó til tvítugs þegar hann flutti að heiman. „Ég segi fólki að ég komi úr Kópavoginum og það vill svo til að ég er einmitt nýbúinn að kaupa íbúð í Kópavogi svo ég er aftur á leiðinni heim í Kópavog.“

Það er í nógu að snúast.

„Þessa dagana er ég að vinna sem umsjónarmaður leikmuna, „propsari“ eða eins og sagt er á fagmálinu „props master“, í íslenskri sjónvarpsþáttaröð. Hvað áhugamál snertir er aðalmálið hljómsveitin mín Óværa, þar leiði ég hljómsveitina með minni yndisfögru rödd. Flutningurinn úr miðbænum eftir 17 ára dvöl og í Kópavog á hug minn allan núna.“

Kiss og stórmyndir í æsku

Guðni hefur alla tíð haft mikla ástríðu fyrir tónlist. „Tónlistaráhuginn kviknaði um 3-4 ára aldur og fyrsta uppáhaldshljómsveitin var Kiss. Gott ef að Kiss var ekki bara í uppáhaldi allra á heimilinu á þessum tíma. Ég man að þegar við mamma horfðum á myndbandið Lick it up hoppuðum við alltaf með Paul Stanley í uppbyggingarkaflanum, hef sennilega verið fjögurra ára þá.“

Guðni hefur komið víða við í heimi tónlistar og kvikmynda. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Þá er hann ekki síður kvikmyndaáhugamaður og voru það upphaflega margar af hinum ódauðlegu stórmyndum áttunda og níunda áratugarins sem hrifu hann. Það er því kannski ekki furða að kvikmyndatónlistin heilli eins mikið og raun ber vitni. „Kvikmyndaáhuginn kviknaði með Spielberg-innrásinni í Hollywood með myndum eins og Jaws, Gremlins, Star Wars og Indiana Jones og fleirum.“

En hvaða mynd hafði mest áhrif í barnæsku?

„Mér dettur helst í hug The Warriors. Hún fjallar um baráttu gengisins The Warriors við að komast heim eftir fjöldafund með öllum gengjum bæjarins þar sem þeir eru sakaðir um morðið á Cyrus sem var kóngurinn, með allar klíkur New York-borgar á eftir sér. Ég gat líka horft endalaust á Conan the Destroyer,“ svarar Guðni.

Enginn tiltekinn leikstjóri er í uppáhaldi en þó eru nokkrir sem eiga sér sérstakan stað í hjartanu. „Ég á mér engan sérstakan uppáhaldsleikstjóra en kannski ber helst að nefna Joe Dante, John Carpenter, Ridley Scott og Stanley Kubrick.“

Byrjaði og endaði í þungarokkinu

Tónlistarsmekkur Guðna hélt áfram að þróast á unglingsárunum og varð til þess að úr varð hljómsveitin Klink sem ýmsir muna eflaust eftir. „Tónlistin þróaðist úr hár-metal hljómsveitum níunda og tíunda áratugarins sem ég dýrkaði sem krakki yfir í Beastie Boys og alls kyns hjólabrettapönk (skate-punk) og þaðan yfir í þungarokk af þyngstu gerð sem endurspeglaðist í hljómsveitinni Klink sem ég var í um tvítugsaldurinn.“

Óhætt er að fullyrða að tónlistarferillinn hafi verið afar fjölbreyttur í gegnum tíðina. „Þróunin hefur eiginlega farið í hring. Ég byrjaði í þungarokkshljómsveit sem unglingur, tók tímabil í raftónlist og fór síðan aftur í þungarokk,“ útskýrir Guðni.

Svipaða sögu er að segja af kvikmyndáhuganum þar sem myrkrið tók fljótlega yfir. „Kvikmyndaáhuginn þróaðist úr stórmyndunum (blockbuster) yfir í Slasher/horror/splatter myndir sem ég var á kafi í upp úr tíu ára aldri. Þórður, elsti bróðir minn, og vinir hans höfðu tengiliði erlendis og fengu myndir sendar á VHS óklipptar en á þessum tíma klippti Kvikmyndaeftirlitið út grófustu atriðin. Oft var svona teljari yfir allri myndinni sem þýddi að þetta væri greinilega klipp beint frá framleiðslufyrirtækinu.“

Guðni Rúnar ásamt plötusafninu. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Hann segir sjónvarpsþáttaraðir í dag orðnar gríðarlega vandaðar. „Í dag er ég opinn fyrir flestu nema kannski súperhetjumyndum, sjónvarpsþáttaraðirnar eru auðvitað orðnar svo sterkar og flottar í dag, þær eru einhvern veginn að taka yfir bíómyndirnar. Uppáhaldssjónvarpsþátturinn minn er The Sopranos.“​ ​

Fann sína hillu fyrir tilviljun

Guðni hefur sem fyrr segir starfað í kvikmyndabransanum undanfarin ár. Hann segir fyrsta kvikmyndaverkefnið hafa verið hálfgerða tilviljun sem varð svo óvænt til þess að hann fann sína réttu hillu í lífinu. „Fyrsta verkefnið var Flags of our Fathers sem ég datt óvart inn í. Planið var alltaf að fara í kvikmyndabransann en ég vissi ekki í hvaða deild mig langaði.“

Þetta reyndist mikil gæfa. „Í Flags var ég í leikmyndadeildinni og áttaði mig fljótt á því að það höfðaði mest til mín þar sem ég er með vinnukarla-gen í mér af gamla skólanum. Þannig að leikmyndavinna var ekta fyrir mig og í gegnum árin er ég búinn að snerta flestar hliðar leikmynda og einhvern veginn endaði ég í leikmununum þar sem ég fæ og þarf að kafa dýpra í handritið,“ skýrir hann frá.

Guðni segir fyrsta kvikmyndaverkefnið hafa verið hálfgerða tilviljun en þar fann hann sína réttu hillu í lífinu.

En hvað stendur upp úr?

„Mögulega stendur upp úr Star Wars Rogue One, það var alveg tryllt að taka þátt í einu stærsta stórveldi allra tíma. Og ekki skemmdi fyrir að fá að fylgjast með Ben Mendelsohn leika skúrkinn, hann er mjög áhugaverð týpa á bak við tjöldin. Hann er líka einn af mínum uppáhaldsleikurum og ég er einmitt á kafi í The Outsider þáttunum sem hann fer með aðalhlutverkið í og eru byggðir á sögu Stephen King.“

Plöturnar orðnar um 200

Guðni er mikill áhugamaður um kvikmyndatónlist og safnar henni. Safnið er orðið býsna myndarlegt. „Ég byrjaði að safna kvikmyndatónlist á sama tíma og ég ákvað að hella mér í vínylinn, í kringum aldamótin. Plöturnar eru orðnar um 200 talsins.“

Þá kemur kannski ekki á óvart að sú plata sem Guðni heldur mest upp á sé hljóðmyndin við uppáhaldskvikmyndina úr æsku. „The Warriors-platan er í uppáhaldi. Hún er ekkert sérstaklega sjaldgæf en ég man hvað ég var glaður þegar ég fann hana í Lucky Records á sínum tíma sem þá var bara pinkulítil búlla á Hverfisgötu. Ég þekkti Ingvar (eigandann) ekki neitt á þeim tíma og held meira að segja að ég hafi haldið kúlinu það mikið við fundinn að ég reyndi að prútta niður verðið með því að skoða plötuna og vísa í grunnar rispur. Ég myndi aldrei haga mér svona við Ingvar í dag, svoddan gæðamaður sem hann er,“ segir Guðni, fullur iðrunar.

Guðni hefur mætur á leikstjóranum Stanley Kubrick. MYND/GETTY

„Á þessari plötu má finna eitt af mínum uppáhaldslögum, lagið „In the City“ sem Joe Walsh úr the Eagles samdi fyrir myndina ásamt Barry De Vorzon, sem gerir þematónlistina. Félagar Joe í The Eagles voru svo hrifnir af laginu að það var tekið upp aftur og sett á The Long Run sem er án efa besta Eagles platan. Þemalagið og tónlistin í myndinni er svo dópuð, myrk og svöl! Það hefur aldrei komið neitt í líkingu við hana nema kannski The Burning soundtrackið eftir Rick Wakeman.“

Guðni er um þessar mundir að vinna að einu stærsta sjónvarpsverkefni Íslandssögunnar, ef ekki því allra stærsta. „Ég er núna að vinna í Kötlu sem er örugglega stærsta sjónvarpsþáttaröð sem gerð hefur verið á Íslandi. Þetta er fyrsta íslenska þáttaröðin sem framleidd er af Netflix og það er mjög gaman að taka þátt í þessu með færasta fólki landsins. Það er í raun verið að skrifa söguna því önnur eins fagframleiðsla hefur ekki áður sést á íslensku efni.“