Kvikmyndaheimurinn liggur í lamasessi vegna andláts kvikmyndatökustjórans, Halyna Hutchins, á tökustað kvikmyndarinnar Rust í Nýju-Mexíkó í gær.

Bandaríski leikarinn og framleiðandinn Alec Baldwin skaut úr byssu, sem hann hélt að innihéldi púðurskot, með þeim afleiðingum að kúlan fór í maga Halynu og þaðan í öxl Joel Souza leikstjóra myndarinnar.

Halyna var sótt af þyrlu en var úrskurðuð látin við komuna á sjúkrahús en Souza var fluttur á sjúkrahús með áverka en var útskrifaður í nótt.

Samkvæmt erlendum miðlum heyrðist Baldwin öskra afhverju honum hafi verið rétt hlaðin byssa rétt eftir slysið.

Þá er einnig haft eftir honum að á öllum hans ferli hafi það aldrei gerst áður að honum hafi verið rétt hlaðin byssa. Samkvæmt vitnum var leikarinn, skiljanlega, í áfalli eftir atburðinn.

Framleiðendum myndarinnar og leikurum hefur verið boðin áfallahjálp eftir slysið. Allir eru sárum yfir atvikinu og senda fjölskyldu Halyna sínar innilegustu samúðarkveðjur.

Halyna sem var 42 ára setti sjálf myndband á Instagram-síðu sína fyrir tveimur dögum þar sem hún er í hestaferð á tökustað. Hún þótti einn efnilegasti kvikmyndatökustjóri Bandaríkjanna.

Fjölmargir hafa tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum. Leikarinn Joe Manganiello birtir færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hann segir Halynu hafa verið einstaklega hæfileikaríka og frábæra manneskju.

Hún hafi haft einstakt auga og hafi verið kvikmynatökustjóra á hraðri uppleið. Þá segir Manganiello einnig að hann trúi ekki að þetta hafi gerst og sé hræðilegur atburður.

Hann votti fjölskyldu hennar, sérstaklega syni hennar sínar dýpstu samúðarkveðjur.

Systir leikarans Brandon Bruce Lee, sem lést í sambærilegu slysi á tökustað árið 1993 við tökur á myndinni The Crow, vottar fjölskyldu Halyna einnig samúð sína á Twitter-reikningi sem hún heldur úti í minningu bróður síns. Þar segir hún að enginn ætti að deyja vegna byssu á setti.

Bandaríski leikarinn og uppistandarinn Paul Scheer segist vera orðlaus á Twitter. Það séu svo margar reglur til þess að koma í veg fyrir að svona gerist á tökustað. Hann trúi ekki að þetta hafi gerst og að þetta sé glæpur vegna alls gáleysisins.