Danska stjórstjarnan Trine Dyrholm verður heiðursgestur á kvikmyndahátíðinni RIFF og formaður dómnefndar í Vitranaflokki hátíðarinnar, sem verður haldin þann 30. september til 10. október.

Trine leikur titilhlutverkið í kvikmyndinni Margrét fyrsta (Margrete den første) sem verður lokamynd á RIFF í ár.

Níu kvikmyndir ungra leikstjóra keppast um Gyllta lundann í flokki Vitrana, en þar eru tilnefndar fyrstu eða aðrar kvikmyndir leikstjóranna.

Með Trine í dómnefnd í ár sitja Gísli Örn Garðarsson leikari, leikstjóri og framleiðandi, Aníta Briem leikkona, Gagga Jónsdótttir, leikstjóri og handritshöfundur og Yorgos Krassakopoulos, dagskrárstjóri Þessalónikuhátíðar á Grikklandi.

Trine Dyrholm í hlutverki Margrétar miklu.

Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF, segir það mikinn heiður að fá leikkonuna til landsins.

„Hún er tvímælalaust ein hæfileikaríkasta og virtasta leikkona Norðurlanda í dag og þótt víðar væri leitað enda margverðlaunuð fyrir frammistöðu sýna,“ segir Hrönn og bætir við:

„Trine er mjög spennt að koma til Íslands og mun taka þátt í hátíðinni og kynnast kvikmyndagerðafólki á Íslandi.“

Segist Hrönn upplifa að fólk sé greinilega orðið mjög bíóþyrst og í ljósi tilslakana verði hægt að halda frábæra hátíð.

Tinna Hrafnsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir leika í kvikmyndinni og létu sig að sjálfsögðu ekki vanta á frumsýninguna með dönsku hirðinni.

Í tilefni af heimsókn Trine mun RIFF einnig sýna kvikmyndina Drottningin frá 2019 þar sem Trine fer með aðalhlutverkið. Sú kvikmynd hlaut aðalverðlaunin á kvikmyndahátíð Gautaborgar sama ár. Mun leikkonan spjalla við áhorfendur á pallborði í Bíó Paradís í tilefni af sýningunni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trine vinnur með Íslendingum en næsta verkefni hennar verður með Benedikt Erlingssyni sem mun leikstýra henni í sjónvarpsseríunni Danska konan. Benedikt skrifar handritið ásamt Ólafi Agli Egilssyni.

Lokamyndin fyrrnefnda fjallar um Margréti Miklu drottningu, eina áhrifamestu konu í sögu Norðurlandanna sem stofnaði Kalmarsambandið á 15. öld. Samsæri setur ævistarf Margrétar í hættu og þarf hún að beita öllum brögðum til þess að viðhalda stöðu sinni og ríkidæmi.

Margrét fyrsta er sannarlega stórvirki en þetta er ein dýrasta kvikmynd sem hefur verið framleidd á Norðurlöndum. Íslensku leikkonurnar Halldóra Geirharðsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir fara með veigamikil hlutverk í myndinni og Kristinn Þórðarson hjá True North er meðframleiðandi myndarinnar. Charlotte Sieling, ein fremsta leikstýra Norðurlanda sem er þekkt fyrir The Bridge, The Killing og Homeland, leikstýrir myndinni.

Margrét Þórhildur, núverandi Danadrottning, mætti á frumsýningu kvikmyndarinnar en vert er að nefna að hún er fyrsta drottning Danmerkur frá Margréti fyrstu sem kvikmyndin fjallar um. Drottningin tók einmitt upp titilinn Margrét önnur til heiðurs Margréti miklu.