Stuðpoppsveitin Kvikindi hefur boðað útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar 7. október. Platan heitir Ungfrú Ísland en sveitin byrjaði að kynda undir eftirvæntingunni í síðustu viku með glænýju tónlistarmyndbandi við lag sitt, Sigra heiminn.

Í laginu syngur söngkonan Brynhildur Karlsdóttir: „Ég sigra heiminn á hverjum degi og kem svo heim að tómu rúmi,“ í því sem hún kallar dramatísku uppgjöri við „kvartlífskrísu, árangursdýrkun og ástarþrá“.

Þá segir hún Kvikindi dansa „sexí rassadans á fjallabíl Spaugstofumanns“, en í myndbandi ganga þau nærri Land Rover-jeppa föður Brynhildar, Karls Ágústs Úlfssonar, leikara og Spaugstofumanns.

Frelsisþrá í tíðindalausum heimi kraumar í myndbandinu.
Mynd/ Nikulás Tuma.

„Óhætt er að segja að þar sé ögrandi dans á ferðinni,“ segir Brynhildur og upplýsir að myndbandið kallist að öðru leyti á við kvikmyndina Wild at Heart eftir David Lynch þar sem bæði leitast við að túlka „frelsisþrá hálfgerðra útlaga, innihaldsleysi og óværð í heimi þar sem ekkert gerist.“

Friðrik Margrétar- Guðmundsson og Valgeir Skorri Vernharðsson eru í Kvikindi ásamt Brynhildi en Birnir Jón Sigurðsson leikstýrði myndbandinu.