Bækur

Kvika

Höfundur: Þóra Hjörleifsdóttir

Útgefandi: Mál og menning

blaðsíður: 134

Andlegt ofbeldi og afleiðingar þess, áhrif klámvæðingar og tvöföld skilaboð í sambandi við ást og ástarsambönd eru megininntak þessarar frumraunar Þóru Hjörleifsdóttur. Við hittum sögukonuna Lilju fyrst þegar hún er í afar varnarlausri stöðu í upphafi ástarsambands sem hún veit þó aldrei hvenær hún má kalla ástarsamband því skilgreiningarvaldið á því er alfarið á hendi þess sem hún er hrifin af. Þá fáum við jafnframt innsýn í fyrra líf hennar, sem verður æ sterkari andstæða við hver hún verður þegar líða tekur á söguna og hún verður smám saman ekki nema skugginn af sjálfri sér. Maðurinn sem hún elskar svona heitt brýtur niður allar varnir hennar og hún endar, eins og hún segir sjálf, eins og laukur sem er búið að taka öll lögin utan af. (bls. 81) Að lokum finnur hún útleið en sagan kennir að ofbeldisferlinu er ekki lokið.

Sagan er sögð í stuttum köflum og svipmyndum af atvikum sem sögukona lýsir þannig að lesanda verður illt í hjartanu en hún sjálf upplifir að séu það gjald sem þarf að greiða fyrir ástina. Lýsingarnar á því hvernig hún fer ítrekað yfir sín eigin þolmörk til að geðjast manninum sem lengi er ekki tilbúinn til að skilgreina sig sem kærastann hennar eru sársaukafullar aflestrar og vekja upp hugleiðingar um hversu mikil áhrif klámáhorf frá unga aldri hefur á upplifanir ungs fólks af kynlífi.

Gerandinn í þessu tilfelli birtist okkur ekki sem góð manneskja en hann er ekki samúðarlaus í sögunni heldur, skýringar á hegðun hans má rekja til erfiðrar barnæsku og eitraðra karlmennskuímynda. Stöðu Lilju er einnig hægt að skýra með því hversu sjálfsagt henni finnst að ganga yfir eigin mörk og ekki síst til hinna lífseigu goðsagna um ástina sem þolir allt og umber allt, ævintýri sem stúlkur drekka í sig, nánast í frumbernsku. Í sögunni er dregin upp sú nöturlega staða sem getur komið upp þegar stelpur sem horfa á rómantískar ástarsögur frá unga aldri og strákar sem horfa á klám, nánast frá sama aldri, hittast og reyna að eiga í samskiptum.

Þetta er áhrifamikil og sterk bók, tungutakið þjált og eðlilegt í fyrstu persónu frásögn sem gerir að verkum að við komumst nær sögupersónunni og sjáum hvernig hún minnkar stöðugt undir þrýstingnum sem „ástin“ leggur á hana. Og það sker í hjartað hvernig hún, og allt of margir, skilgreina það sem hún upplifir sem ást.

Niðurstaða: Áhrifamikil bók um mörk, bæði mörkin milli andlegs ofbeldis, kláms og ástar og einnig þau mörk sem við berum innra með okkur og eigum lífið undir að virða.