Flosi Þorgeirson er þekktastur sem gítarleikari þeirrar goðsagnakenndu hljómsveitar HAM og hefur sem slíkur látið lítið á sér bera og kunnað best við sig í bakgrunninum á sviðinu með HAM.

„Ég hef lítið verið í því að semja lög og allt sem ég setti saman fannst mér bara ekkert merkilegt. Þannig að ég hef bara eiginlega alltaf verið hljóðfæraleikari,“ segir Flosi.

„Þetta byrjaði fyrir svona rúmum tíu árum síðan og ég tengi það mikið við að ég krassaði bara algerlega 2009 og endaði inni á geðdeild með kvíða, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Allan þann pakka bara.

Þar voru geðlæknar sem sögðu mér bara að ég yrði að hætta að drekka og yrði að taka þetta þunglyndi sterkum tökum. Ég hlýddi því bara og fór í góða meðferð,“ segir Flosi.

Risastórt skref

„Ég held að upp frá því verði bara svo miklar breytingar, bæði á persónuleikanum og hugsuninni, þannig að allt í einu minnkaði þetta óöryggi og sjálfsvanmat einhvern veginn svo mikið að mér fór bara að þykja þetta fínt sem ég var að setja saman. Og ég er bara allt í einu kominn með nokkur lög sem voru föst í hausnum á mér og þau vildu bara ekkert fara.“

Flosi segir að hugmyndin um að hann þyrfti að gera eitthvað við þessi lög og gefa þau út hafi orðið stöðugt ágengari. „Sumar hugmyndir vilja bara ekki fara úr hausnum á mér og maður veit að maður verður að láta undan þessu. Það var eiginlega bara þannig. Ég fann að þetta var eiginlega farið að gera mig brjálaðan,“ segir Flosi og bendir á að þetta sé rosalegt skref fyrir hann.

Arnar Geir trommari og Flosi gítarleikari með hina HAM-arana, S. Björn Blöndal, Sigurjón Kjartansson og Óttar Proppé, á milli sín.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ég hef alltaf viljað halda mig í bakgrunninum. Ekki trana mér fram. Mér finnst fínt að vera bara gítarleikarinn í bandinu og ekki sá sem er kallaður í viðtöl eða neitt svoleiðis en þetta er dálítið skref. Nú er þetta bara ég sem er í fararbroddi og öll athyglin beinist að mér þannig að það hefur bara verið heilmikil barátta við kvíðann út af því.“

Flosi ákvað því að láta reyna á hópfjármögnun útgáfunnar á Karo­lina Fund þar sem viðbrögðin settu hann gjörsamlega út af laginu. „Ég átti nú von á því að þetta myndi ganga sæmilega,“ segir Flosi sem gaf söfnuninni 40 daga og hugðist leggja til sjálfur það sem upp á vantaði svo söfnunin færi ekki forgörðum.

„Ég var eiginlega hvattur til þess af vinum mínum sem voru alltaf að segja að ég yrði enga stund að ná þessu. Ég trúði því náttúrlega ekkert sjálfur vegna þess að vinir mínir hafa miklu meiri trú á mér heldur en ég sjálfur. Það er bara þannig,“ segir Flosi um söfnunina.

Mesta kvíðakast síðari ára

„Síðan voru viðbrögðin bara svo tryllt. Á innan við sólarhring voru þessar 5.300 evrur, eitthvað um 800 þúsund krónur, sem ég ætlaði að safna, komnar í hús. Núna er þetta í 156 prósentum og ég er kominn með svo miklu meira en ég ætlaði mér í upphafi og þá fékk ég náttúrlega bara bullandi kvíðakast. Það eru mín viðbrögð.

Flestir eðlilegir ættu að gleðjast yfir slíku en ég er ekki beint eðlilegur. Ég er með þunglyndis- og kvíðaröskun og mín viðbrögð voru því að fá eitt mesta kvíðakast sem ég hef fengið árum saman.“

Flosi segir að það þýði ekkert fyrir skynsemina að brjótast í gegn þegar svona áhlaup kemur og ómögulegt að svara hvað valdi því. „Það er svo skrýtið með þennan kvíða einhvern veginn. Ég veit það ekki. Hann er bara bilaður. Þetta er eins og að standa á hengiflugi og segja sjálfum þér að allt sé í fína. Heilinn hlustar ekki á það og sendir ærandi hættuboð um allan líkamann.

Þetta er svipað nema það kemur hjá mér þegar það ætti eiginlega ekki að gerast. Það er svo sem eðlilegt ef maður stendur á kletti en ekki þegar fólk er að flykkjast til að hjálpa manni að láta draum sinn rætast.“

Haustið er tíminn

Upptökum á plötunni er í raun lokið en eftirvinnslan er eftir. „Upptökumaðurinn minn fékk Covid-sprautu og varð fárveikur þannig að hann er ekki alveg búinn að senda mér það sem hann er búinn að vera að mixa. En næsta skref er að hlusta á það sem ég er búinn að taka upp og athuga hvort það sé nógu gott eða hvort það þurfi eitthvað að bæta við.
Síðan fer þetta bara í hljóðblöndun og masteringu og svo þarf að hanna umslag,“ segir Flosi sem vonast til að platan geti komið út síðsumars enda hafi hann ákveðnar efasemdir um útgáfu um hásumar.

„Það væri fínt og mér þætti allt í lagi að þetta kæmi út svona í ágúst, september. Það er svona minn tími. Haustið. Þegar allt fer að fölna, deyja og verða grátt. Það getur tekið á en það er svona ljóðrænn sársauki á haustin,“ segir Flosi og hlær.

Alls konar áhrif

Flosi segir plötuna í raun nokkurs konar óð til allrar þeirrar tónlistar sem hefur haft áhrif á hann í gegnum tíðina. Þar megi finna jafnt áhrif frá nýbylgjurokki níunda áratugarins, pönki, þungarokki og klassísku rokki.

„Það er það eina jákvæða sem ég sé við þetta. Að kvíðinn heldur mér alltaf hógværum. Ég held kannski dálítið í auðmýktina í gegnum kvíðann. Fátt er svo með öllu illt.“
Fréttablaðið/Ernir

„Þarna má alveg heyra pönk og svo svona jaðarrokk níunda áratugarins í anda Sonic Youth, Dinas­aur Junior og einhverra svoleiðis hljómsveita. Þetta verður tíu laga hreinræktuð rokkplata sem gítar, bassi og trommur munu bera uppi,“ segir Flosi sem syngur og leikur á öll hljóðfæri fyrir utan að á trommum nýtur hann krafta Arnars Geirs Ómarssonar, góðvinar hans og félaga úr HAM.

„Ég sagði strákunum í HAM frá því á einhverri æfingu fyrir mörgum árum síðan að mig langaði að gefa út sólóplötu og væri byrjaður að semja lög. Þeir voru bara spenntir fyrir því og vildu endilega fá að heyra þegar þetta væri komið.

Arnar Geir gekk þó aðeins lengra. „Hann sagði strax við mig að ef ég væri að fara að gera eitthvað svona þá ætti ég að hringja í hann. „Mér finnst að ég eigi að tromma ef þú ert að fara að gefa út sólóplötu,“ sagði hann og bauð sig þannig bara fram. Löngu áður en hann var búinn að heyra eitthvað af þessu.“

Fortíðardraugar

Flosi segir að þegar Arnar Geir hafi svo komið í hljóðverið hjá Einari Vilberg og loksins heyrt lögin hafi þau komið honum á óvart og þá helst hversu „indí“ tónlistin væri.

„Hann átti von á að þetta yrði kannski meira svona þungt rokk og var dálítið hissa að heyra hvað það væru alls kyns stílar ráðandi og í rauninni tengdi hann við að þetta væri dálítið mikið af þeirri músík sem hafði áhrif á okkur þegar við vorum krakkar.“

Talandi um fortíðardrauga verður ekki hjá því komist að nefna hlaðvarpsþætti Flosa og Baldurs Ragnarssonar, Drauga fortíðar, sem nýtur mikilla vinsælda en þar ræða þeir áhugaverða liðna atburði. Eins og þeim einum er lagið.

„Það er náttúrlega alveg hræðilegt bara,“ segir Flosi og hlær þegar hann er spurður hvernig það sé að vera orðinn podcast-stjarna ofan á allt annað.

„Sérstaklega vegna þess að ég virðist alveg ófær um að geta sannfært sjálfan mig um að ég sé eins góður og hæfileikaríkur og fólk er alltaf að segja mér að ég sé.

Þetta er yfirþyrmandi og ég fæ bara kvíða yfir öllum skilaboðunum og þökkunum sem ég fæ send. Þetta er ekki síst út af því að við erum að tala um þunglyndi, kvíða og athyglisbrest. Mjög opinskátt eins og við höfum alltaf gert. Og viðbrögðin eru náttúrlega yfirþyrmandi en um leið stórkostleg.“

Auðmýktin í kvíðanum

Flosi bendir á að hann hafi fengið mikinn stuðning frá hlustendum í söfnuninni fyrir plötuútgáfunni. „Ég hef fengið rosalegan stuðning frá því fólki. Við erum komnir með dálítið sterkan aðdáendahóp og það eru ekki síst aðdáendur Drauganna sem voru að styðja mig með þessa plötu.

Þar á meðal er maður sem ég þekki ekki neitt og lagði heilmikið inn á mig. Hann sagði bara að ég áttaði mig ekki á hvað ég væri að gera mikið fyrir fólk. Ég finn bara að það kemur skömmustutilfinning þegar ég er að segja þetta. Ég á ekki að vera að hæla sjálfum mér svona,“ segir Flosi og auðheyrt er að hann meinar það sem hann segir.

„Það góða við þetta er að ég á allavegana aldrei eftir að ofmetnast. Það er það eina jákvæða sem ég sé við þetta. Að kvíðinn heldur mér alltaf hógværum. Ég held kannski dálítið í auðmýktina í gegnum kvíðann. Fátt er svo með öllu illt.“