Ágúst, eða Gústi, eins og hann er ávallt kallaður, hefur nú sett fiskbúðina í hendurnar á syni sínum, Tómasi, og ætlar sjálfur að fara að taka lífinu með ró enda kominn á virðulegan aldur. Gústi segir að margt hafi breyst í áranna rás í fiskbúðum landsmanna. Hin þverskorna ýsa hefur þurft að víkja fyrir ýmsum framandi fiskréttum.

Þegar Gústi keypti fiskbúðina, sem var á horni Reykjavíkurvegar og Kirkjuvegar í Hafnarfirði fyrir 35 árum, komu húsmæður enn gangandi í búðina til að kaupa fisk í hádegismat. „Þá komu karlarnir heim í mat í hádeginu. Það voru ekki jafnmargir á bílum og í dag. Smátt og smátt var fiskbúðin á Kirkjuvegi orðin of lítil og bílastæði af skornum skammti. Það var því ekkert í stöðunni nema að stækka við sig,“ segir Gústi sem fann rétta staðinn í Trönuhrauni árið 2005 þar sem voru næg bílastæði. Þar hefur hann verið síðan og á marga fastakúnna. „Sumir koma til mín langt að, til dæmis úr Mosfellsbæ og frá Seltjarnarnesi,“ segir hann. „Ég hef líka alltaf reynt að bjóða gott verð á fiskinum. Það er hins vegar orðið erfitt þar sem hann hefur hækkað mikið í verði.

Neyslan hefur breyst

Nú borðar fólk ekki lengur heima í hádeginu, heldur fer í ræktina eða borðar í mötuneytum og á skyndibitastöðum. Fiskur er frekar á borðum á kvöldin og þá einhvers konar fiskréttir. Neysla á fiski hefur breyst svakalega mikið. Nú selur maður varla heila ýsu lengur. Við höfum fylgt straumnum og bjóðum upp á margvíslega fiskrétti í sósum. Að sjálfsögðu erum við líka með ferskan fisk í flökum. Ég hef alltaf verkað sólþurrkaðan saltfisk og hann er enn vinsæll. Á árunum í kringum 1987 þurrkaði ég tvö tonn af saltfiski en í dag eru þetta 500 kg. Neyslan hefur minnkað þetta mikið. Þeir sem voru aldir upp á sólþurrkuðum saltfiski eru farnir að týna tölunni,“ segir hann. „Þótt einhverjir tali um að sakna soðningarinnar þá er hún samt á útleið. Sömuleiðis gellur og kinnar.“

Arftakar fiskbúðarinnar eru sonur Gústa, Tómas, og tengdadóttir, Hafdís. Þau verða með mikið úrval alls kyns fiskrétta ásamt ferskum fiski.

Gústi hafði áður verið á sjónum, starfaði á fiski- og loðnubátum sem gerðir voru út frá Grindavík og einnig frá Snæfellsnesi áður en hann festi kaup á fiskbúðinni. Hann segist fyrst hafa farið á sjóinn á nítjánda ári. „Það var skemmtilegur og lærdómsríkur tími,“ segir hann. „Ég væri alveg til í að fara einn og einn róður ef ég er ekki orðinn of gamall.“

Gústi segist hafa keypt fiskinn alls staðar frá á landinu. „Ég kaupi hann þar sem hann er ferskastur hverju sinni. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á gæðahráefni. Ég þekki bátana og veit hvar besta fiskinn er að finna.“

Villtur lax fágætur

Þegar Gústi er spurður hvort hann kaupi nýveiddan lax og silung af veiðimönnum, svarar hann því játandi. „Laxinn í borðinu er þó mestmegnis úr eldi. Yfir sumartímann getum við stundum boðið villtan lax. Hér áður fyrr beið fólk eftir því að Hvítárlaxinn kæmi í borðið. Þá var enginn eldislax í boði. Nú hefur hann tekið yfir og margir þekkja ekki annað. Bleikjan er sömuleiðis mjög vinsæl en hún kemur líka úr eldi. Að mínum dómi er þó alltaf annar bragðkeimur af villtum fiski.“

Gústi hefur alltaf verið með góðan hákarl á þorranum en hann segir að það veiðist minna af honum til verkunar um þessar mundir. Hann segir að hákarlinn sé orðinn árstíðabundin vara en áður fyrr fékkst hann allt árið.

Sonurinn tekur við

Þótt Gústi standi ekki lengur við afgreiðsluborðið í fiskbúðinni í Trönuhrauni segist hann ekki alveg hafa skilið við hana. „Ég kíki inn á morgnana og keyri út fyrir soninn. Tómas stendur vaktina núna ásamt konu sinni, Hafdísi, sem ég er ánægður með. Strákurinn byrjaði að hjálpa mér tólf ára gamall svo hann kann þetta. Búðin hefur alltaf gengið vel og ég held að það megi þakka góðu hráefni. Við höfum líka verið í lægri kantinum í verði. Línuýsan er langvinsælust hjá viðskiptavinum mínum og er um 70% af sölunni. Það er ekki mikil aukning í þorski en þó eitthvað. Þegar bátar geta ekki farið út að veiða vegna kvótaleysis minnkar framboðið og verðið hækkar,“ segir hann.

Þegar Gústi er spurður hvernig hann ætli að verja tímanum nú þegar hann hættir að vinna, svarar hann: „Hvað gera gamlingjar þegar þeir hætta að vinna? Ég á hjólhýsi og mun líklegast ferðast um landið í sumar ef veður leyfir. Dagurinn byrjar alltaf mjög snemma í fiskbúðinni og er langur. Það tekur líklega smá tíma að venjast nýju lífi. Hjá mér hafa verslað nokkrir ættliðir og ég þekki orðið marga. Ætli maður kíki ekki við og við í búðina til að heilsa upp á þá.“ ■