Feima kammerklúbbur heldur sína fyrstu tónleika í Flóa, Hörpu, í kvöld, fimmtudaginn 12. maí klukkan 20. Feima sprettur upp úr starfi Elju kammersveitar sem skipuð eru ungu íslensku klassísku tónlistarfólki.
Elja heldur utan um mönnun og listræna stjórnun kammerklúbbsins, og heldur tónleikaröð undir nafninu Feima, í Flóa. Þar mætast klassísk kammertónlist og önnur tónlistarform. Feima er hugsað sem vettvangur þar sem kvenkyns tónskáld og flytjendur eru í forgrunni og munu tónlistarkonur slást í hóp með klassískum hljóðfæraleikurum Elju. Flutt er fjölbreytt dagskrá ýmissa kventónskálda.
Nafn klúbbsins, Feima, er samheiti orðsins kona og tilvísun í þá stefnu klúbbsins að rétta af hlutföll kynja sem oft sjást á efnisskrám og annars staðar í tónlistarlífinu.
Á fyrstu tónleikum þessarar tónleikaraðar kemur fram djasspíanóleikarinn Anna Gréta Sigurðardóttir ásamt því að flutt verða kammer- og sólóverk eftir tónskáldin Kaija Saraaiaho, Mel Bonis og Judith Weir.