„Hingað til hef ég haldið mig á mottunni, verið fréttakona og haldið sjálfri mér aðeins til hliðar í umfjöllunarefnum en þessi þáttur er meiri samtalsþáttur en viðtalsþáttur,“ segir sjónvarpskonan Margrét Erla Maack um þáttinn Kvennaklefann sem er á dagskrá Hringbrautar í fyrsta sinn í kvöld.

„Þetta er eins og að vera að hlera saumó hjá mömmu. Þættirnir eru persónulegir, við tökum fyrir mál sem okkur finnst risastór en eru ef til vill hversdagsleg og hluti af lífi margra – en við tölum líka um stóru málin og samfélagsmál.“

Margrét segist vera ánægð með nafnið. Það kallist skemmtilega á við umræður um „locker room talk“, eins og hún segir sjálf.

„Það verður ýmislegt látið flakka og reynt að af-tabúvæða alls konar umræðu. Kvennaklefinn útilokar samt ekki fólk, öllum er boðið að hlusta og horfa – þó að viðfangsefnin litist auðvitað af okkur umsjónarkonunum og okkar samfélagsspegli.“

Auk Margrétar eru Maríanna Pálsdóttir, skemmtilegasta sminka landsins, Gógó Starr dragdrottning, Salka Gullbrá uppistandari og Brynhildur Karlsdóttir tónlistarkona umsjónarkonur þáttarins.

„Í fyrsta þættinum ætlum við nokkrar konur á svipuðum stað – milli þrítugs og fertugs – að opna okkur um barneignir og getnaðarvarnir, við ræðum við Tönju Ísfjörð um #MeToo og hvernig það hefur þróast undanfarin ár og hvernig það talar inn í samtímann.

Maríanna hittir okkur Gógó Starr í okkar náttúrulega umhverfi: Baksviðs á kabarettsýningu og svo fer Gógó Starr yfir djammfréttirnar.“