Kvennafrídagurinn er í dag en fjörutíu og fimm ár eru liðin frá því hann var haldinn í fyrsta skipti hér á landi. Konur hafa lagt niður vinnu í sex skipti til að mótmæla kynbundnu misrétti, árið 1975, 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018. Venjulega hafa verið haldnir baráttufundir í tilefni dagsins en vegna heimsfaraldursins fer dagurinn fram með öðru sniði. Í ár er sérstök áhersla lögð á kvennastéttir sem starfa í framlínunni í baráttunni gegn kórónuveirunni undur kjörorðunum, „Konur lifa ekki á þakklætinu!"

Áframhaldandi barátta

Kvennafrídagurinn var haldinn í fyrsta sinn 24. október árið 1975. Þá tóku kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög sig saman og skipulögðu dag þar sem konur lögðu niður vinnu til að leggja áherslu á mikilvægi vinnuframlags kvenna á Íslandi.

20 til 25 þúsund manns komu saman á útifund kvenna á Lækjartorgi árið 1975.
Mynd úr Ljósmyndasafni Ólafs K. Magnússonar

„Konur eru enn með 25 prósent lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar"

24. október er dagur Sameinuðu þjóðanna en Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna helgaði áratuginn 1975 til 1985 málefnum kvenna. Tatjana Latinović, formaður Kvenréttindafélags Íslands segir að í dag, 45 árum síðar sé framlag kvenna til samfélagsins enn ekki að fullu metið að verðleikum. „Konur eru enn með 25 prósent lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar. Þar með hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir sex klukkustundir og eina mínútu miðað við fullan vinnudag frá klukkan níu til fimm. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið klukkan 15:01 í dag.“

Konur verið í framlínu í meira mæli en karlar

Í ár er lögð sérstök áhersla á konur sem starfa í framlínunni gegn Covid-19 hér á landi enda sinna konur að stærstum hluta störfum sem skilgreind eru á tímum veirunnar sem nauðsynleg grunnþjónusta.

Frá baráttufundi 2016.
Fréttablaðið/ Ernir Eyjólfsson

Konur eru 75 prósent af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 73 prósent starfsfólks í fræðslustarfsemi og 57 prósent þeirra starfa við þjónustu og verslun. Á heimsvísu eru konur um 70 prósent þeirra sem starfa í heilsugæslu og við félagsþjónustu og þær eru í meirihluta þeirra sem standa í framlínunni í baráttunni gegn Covid-19.

„Án ólaunaðrar vinnu kvenna á heimilum væri ekki hægt að halda vinnumarkaðnum gangandi"

„Kvennastörf eru undirstaða samfélags okkar, undirstaða vinnumarkaðarins. En þrátt fyrir að vera nú viðurkennd sem lykilstörf í samfélaginu, hafa þessi störf í áratugi verið metin minna virði en önnur störf þar sem karlar eru í meirihluta. Konur bera líka enn þann dag í dag hitann og þungann af umönnun barna og aldraða, og án dagvistunar og hjúkrunarheimila og án ólaunaðrar vinnu kvenna á heimilum væri ekki hægt að halda vinnumarkaðnum gangandi. Án þeirra væri íslenskt samfélag óstarfhæft. Konur í framlínustörfum munu ekki leggja niður störf sín í dag, á kvennafrídeginum, þrátt fyrir að ærin ástæða sé til,“ segir Tatjana.

Staðan breyst lítillega

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands ættu konur að leggja niður störf í klukkan 15:01 í dag. Árið 2005 voru konur hvattar til að leggja niður vinnu klukkan 14:08, en tímasetning verkfallsins var þá reiknuð út frá mun á heildarlaunum kynjanna. Árið 2010 sýndu útreikningar að konur hafi unnið fyrir kaupinu klukkan 14:25. Tímasetningin árið 2016 var 14:38 og 2018 14:55, í fyrra var það heilli mínútu síðar eða 14:56. Staðan virðist því skána lítillega með árunum þó enn sé langt í land.

Kvennafrídagurinn 2018 undirbúinn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Baráttufundur með öðru sniði í ár

Ekki verður hægt að safnast saman á baráttufundi í ár eins og venjan er vegna samkomutakmarkanna. Konur á Ísafirði standa hins vegar fyrir rafrænum samstöðufundi. Fundurinn verður í beinu streymi á Facebook- síðunni Kvennaverkfall - netviðburður og hefst klukkan eitt. Bryndís Friðgeirsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður opnar fundinn með því að lesa upp yfirlýsingu frá Kvenréttindafélagi Íslands og samtökum launþega. Kvenréttindafélagið stendur einnig fyrir stafrænni herferð sem hófst á samfélagsmiðlum í gær og í dag verða birtar auglýsingar á netmiðlum. Þá hefur einnig verið útbúið nýtt merki kvennafrídagsins í tilefni 45 ára afmælisins sem hægt er að sjá inn á vefsíðunni kvennafri.is.

Tatjana og Kvennréttindafélagið krefjast þess að jafnréttissjónarmið séu höfð að leiðarljósi á allri uppbyggingu samfélagsins og kvennahreyfingin er að fylgjast mjög vel með aðgerðum stjórnvalda.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson
„Nú er mikilvægt fyrir okkur öll sem unnum jafnrétti að slá ekki af baráttu okkar fyrir betri heimi.

Mikilvægt að sýna samstöðu

Tatjana segir að Covid-19 hafi haft ýmsar afleiðingar í för með sér, sjúkdómurinn hafi ekki aðeins stefnt heilsu okkar í hættu. Heldur ýti farsóttir ýti undir kynjamisrétti og annað ójafnrétti í samfélaginu.

„Nú er mikilvægt fyrir okkur öll sem unnum jafnrétti að slá ekki af baráttu okkar fyrir betri heimi. Við verðum að tryggja það að kynjajafnrétti verði ekki utanveltu í því samfélagi sem við sköpum í kjölfar faraldursins. Við verðum að tryggja kjarajafnrétti til frambúðar. Áfram stelpur!“ segir Tatjana að lokum.

Yfirlýsingu Kvennréttindafélagsins og samtaka launþega er hægt að lesa í heild sinni hér.