Þegar Anna Linda útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands fór hún að vinna hjá Deloitte endurskoðunarskrifstofu í þrjú ár en lét sig dreyma um framhaldsnám í útlöndum, enda langaði hana alltaf að fara út sem skiptinemi á yngri árum. „Ég ákvað að sérhæfa mig enn frekar í skattarétti, sem hefur verið mitt uppáhaldssvið í lögfræðinni. Fyrir valinu varð nám í alþjóðlegum og bandarískum skattarétti við lagaháskólann í San Diego sem bauð upp á þetta sérhæfða nám,“ segir hún. „Ég var svo heppin að fá Fulbright-styrk frá bandaríska sendiráðinu og styrk frá skólanum sjálfum til að greiða skólagjöldin, sem voru mjög dýr. Þetta var yndislegur tími og eitt besta ár lífs míns. Falleg borg, áhugavert nám og stöðugt veðurfar, ásamt því að kynnast fólki alls staðar að úr heiminum átti stóran þátt í því. Auk þess er San Diego ekki dæmigerð bandarísk borg. Mjög margir innflytjendur búa þar frá Mexíkó og Suður-Ameríku, sem gefur borginni mikinn sjarma,“ segir hún.

Á þessum slóðum eru margir salsa-dansstaðir sem Anna Linda heillaðist af. „Fyrst var kennsla og síðan dansað á eftir. Flestir karldansarar voru suðuramerískir og þeir kunna að dansa, virðast hafa dansinn og taktinn í blóðinu. Ég fór oft á þessa staði með vinkonum mínum sem ég kynntist í skólanum og fannst þetta mjög skemmtilegt. Eitt kvöld skipulagði háskólinn alþjóðlegt kvöld fyrir erlendu nemana og þar var meðal annars boðið upp á magadanssýningu frá dansskóla í borginni. Í einu atriðinu tóku dansarar nokkra nemendur á dansgólfið, mig þar á meðal, og við áttum að dansa með þeim. Mér fannst músíkin svo frábær og skemmti mér konunglega. Magadansinn átti strax við mig og ein úr danshópnum hvatti mig til að byrja að æfa magadans. Ég hló nú bara að henni þá, en kvöldið sat í mér og ég gleymdi ekki þessari upplifun,“ segir Anna.

Magadans fyrir líkama og sál

Þegar Anna Linda kom aftur heim til Íslands að námi loknu sá hún auglýst námskeið í magadansi hjá Kramhúsinu. „Ég skellti mér á námskeið í janúar 2002 hjá kennara frá Brasilíu. Ég varð síðan barnshafandi og hætti í nokkur ár, en við kennarinn náðum aftur saman síðar og þá var ekki aftur snúið,“ segir hún. „Það var eftir að ég hafði samband við kennarann og bað hann að dansa og vera með skemmtiatriði í jólaveislu fyrir viðskiptavini mína,“ segir Anna Linda sem rekur eigin lögfræðistofu, Lexistu ehf.

„Það gerist eitthvað í magadansinum,“ segir Anna, sem varð aftur barnshafandi þegar hún byrjaði að æfa á ný. Hún tók sér árshlé frá dansinum og hefur haldið áfram síðan. Eiginmaður hennar er líka lögmaður, Ægir Guðbjarni Sigmundsson, en þau eiga tvo syni, 13 og 18 ára. Þau æfðu samkvæmisdansa fyrir nokkrum árum, sem var þeirra tími þegar synirnir voru yngri. Anna segist þess utan stundum sýna eiginmanninum nýja dansa, sem hún hefur samið og hann hefur gaman af því að fylgjast með. Hefur jafnvel mætt í tíma til að taka myndir fyrir hana. „Magadansinn er þó í mestu uppáhaldi, enda er hann fullkominn fyrir kvenlíkamann og tónlistin frábær,“ segir Anna, sem er einnig drjúgur göngugarpur og fer á fjöll. Hún hefur tvisvar gengið á Hvannadalshnjúk auk Fimmvörðuháls, en í sumar fór hún í fjögurra daga hestaferð í Þórsmörk.

Anna Linda hefur verið að undirbúa fyrirlestra um lagaleg úrræði gegn einelti, sem hún hyggst bjóða upp á í öllum grunnskólum landsins sem þurfa á slíkri fræðslu að halda.

Skrautlegir búningar

Þegar magadanskennari Önnu tók sér hlé haustið 2012, ákvað hún að halda sín eigin dansnámskeið til að geta haldið áfram. Þá hafði hún prófað að kenna byrjendanámskeið og hafði gaman af. „Fyrst leigði ég sal hjá CrossFit-stöð á Suðurlandsbraut og það var mikill áhugi fyrir dansinum. Fjórtán konur mættu til leiks á fyrsta námskeiðið. Þegar stöðin var seld flutti ég dansnámskeiðin yfir til World Class og hef verið í samstarfi þar í sex ár. Núna kenni ég dansinn í World Class Smáralind, sem var áður Baðhús Lindu og öll umgjörð mjög kvenleg. Ég hef hvergi dansað í betri sal, öll aðstaða er eins og best verður á kosið. Maður finnur þetta kvenlega í loftinu sem gefur umhverfinu sérstakt andrúmsloft, auk þess sem mér finnst skipta máli að þátttakendur hafi aðgang að búningsklefa, sturtum, gufum og heitum potti eftir tímana.

Ég fæ alltaf nýjar konur á byrjendanámskeið, en þær sem eru með mér í framhaldstímum eru búnar að fylgja mér lengi, jafnvel frá upphafi. Næsta byrjendanámskeið hefst 5. október,“ segir Anna. „Stærsti hópurinn er konur á aldrinum 30-55 ára. Þetta eru konur sem hafa mismunandi bakgrunn, menntun og starf en þegar þær eru komnar í pils og topp og byrja að dansa eru allar sem ein. Búningarnir eru skrautlegir og mikið lagt í þá. Ég hef keypt búninga í Tyrklandi og á netinu. Einnig er hægt að kaupa notaða búninga hér heima. Einn nemandi minn hefur verið öflugur í að sauma búninga á okkur fyrir sýningar og er mjög flink. Magadans er auðvitað fyrir glysgjarna og endalaust hægt að gera konur kvenlegar og flottar með búningum, förðun og fylgihlutum. Arabísk augnförðun er mjög glæsileg og íburðarmikil, sérstaklega hvernig eyliner er beitt. Konur frá Arabalöndum hylja oft og tíðum opinberlega andlit sitt að augunum undanskildum og nota því áberandi förðun í kringum þau.“

Blævængir og slæður

Anna Linda og danshópur hennar hafa tekið þátt í árlegum sýningum á danshátíðinni 1001 nótt í Tjarnarbíói, en þeirri sýningu var frestað í vor, eins og svo mörgu öðru. „Það hefur verið uppskeruhátíð okkar sem dönsum magadans. Sömuleiðis höfum við verið með skemmtiatriði á árshátíðum. Ég er hrifin af öllu spænsku/latín. Ég sem líka eigin dansa við latíntónlist og nota flamenco-pils í suma dansana. Pilsin gera svo mikið fyrir dansinn, sem og blævængir og slæður. Ég er auk þess mjög hrifin af pilsum og kjólum með spænsku „volante“ og að vera með blóm í hárinu,“ segir hún. „Ætli megi ekki segja að ég sé glysgjörn. Ég er til dæmis alltaf fín í vinnunni en klæði mig eftir veðri. Á sumrin er ég oft í kjól eða pilsi en drögtum á veturna. Ég kaupi mikið af mínum fatnaði erlendis eftir að uppáhaldsbúðinni minni hér heima var lokað. Núna ferðast maður ekki svo ég nota þann fatnað sem ég á í skápnum.“

Anna Linda segir að pilsin geri svo mikið fyrir dansinn, sem og blævængir og slæður. Hún er auk þess mjög hrifin af pilsum og kjólum með spænsku „volante“ og að vera með blóm í hárinu. Hér er hún í magadansklæðum.

Fyrirlestrar um einelti

Dansinn er ekki eina áhugamál Önnu Lindu því hún heldur ákaflega áhugaverð námskeið, meðal annars er varða eineltismál og lagaleg réttindi þeirra sem verða fyrir slíku. „Ég hef verið með námskeið fyrir þá sem vilja stofna fyrirtæki frá árinu 2002, en undanfarið hef ég verið að undirbúa fyrirlestra um lagaleg úrræði gegn einelti sem ég hyggst bjóða upp á í öllum grunnskólum landsins sem þurfa á slíkri fræðslu að halda. Ég mun setja mig í samband við foreldrafélög skólanna í október.

Þó svo fyrirlesturinn sé fyrst og fremst fyrir foreldra geta vitaskuld skólastjórnendur og kennarar nýtt sér hann líka. Ég mun kynna fyrir foreldrum þau úrræði sem grunnskólalögin bjóða upp á, rétt þeirra gagnvart stjórnvöldum eins og leiðbeiningarskyldu, auk þess að kynna fyrir þeim möguleikann á málsókn, ef skólinn getur ekki tryggt öryggi nemenda sinna. Sömuleiðis mun ég kynna hlutverk opinberra stofnana og þá þjónustu sem þeim ber skylda til að veita samkvæmt lögum,“ útskýrir Anna.

Kveikjan að þessum fyrirlestri Önnu er tilkomin vegna eineltis sem barnið hennar varð fyrir í skóla. „Ég gekk sjálf í gegnum baráttu vegna eineltis sem sonur minn var beittur þegar hann var 10-11 ára gamall. Þá nýtti ég lagaleg úrræði og ákvað að taka þetta eins og verkefni í vinnunni. Ég trúði því ekki að það væri ekkert hægt að gera, en ég upplifði stundum algjört úrræðaleysi innan skólans. Það tókst að stöðva þetta að lokum. Ég heyri mikið um einelti í grunnskólum og foreldrar hafa þurft að láta börn sín skipta um skóla vegna þess, en ég vil stöðva slíka þróun. Fyrst og fremst þarf að beina sjónum að gerandanum og hans vandamálum, því það er eitthvað meira en lítið að hjá barni sem getur ekki hætt að beita aðra einelti,“ segir Anna og vonast til að fyrirlestrarnir fari fljótlega í gang.

Anna hefur í starfi sínu fjölbreytt verkefni á sinni könnu, stofnun fyrirtækja, skattamál og erfðamál, sem geta verið mjög flókin. „Samsettar fjölskyldur eru algengar á Íslandi og það er mjög mikilvægt að huga að réttarstöðu allra þegar maki fellur frá. Eignastaða getur verið misjöfn og mikilvægt að gera erfðaskrá, til dæmis til að tryggja rétt eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi,“ útskýrir hún. Þegar Anna leggur frá sér vinnuna getur hún gleymt sér í dansi og með góðri tónlist sem hlýtur að vera slakandi í dagsins önn.

Danshópur undir stjórn Önnu Lindar. Þær taka sig vel út.