Anna Linda er líka mikil hundakona og er besti hlaupafélaginn Baron, hundurinn hennar. Anna Linda lauk námi í hjúkrunarfræði við HÍ 1998 og bætti síðar við sig menntun í heyrnarfræði við háskóla í Edinborg og Cambridge í Bretlandi. „Ég starfaði í nokkur ár sem hjúkrunarfræðingur á slysa- og bráðamóttöku LSH en ákvað að skipta um starfsvettvang og fór að vinna hjá lyfjafyrirtæki (Pharmaco sem síðar varð Vistor), fyrst sem sölufulltrúi og síðar sem sölu- og markaðsstjóri,“ segir Anna Linda.

Áhuginn á heyrnarfræði jókst

„Á þeim tíma hafði maðurinn minn, hann Björn Víðisson, stofnað Heyrnartækni, fyrstu einkareknu heyrnartækjastöðina á Íslandi. Umsvif Heyrnartækni fóru vaxandi með hverju ári og ákvað ég að venda kvæði mínu í kross árið 2006 og fór að vinna hjá Heyrnartækni. Til að byrja með sinnti ég aðallega markaðsmálum en áhugi minn á heyrnarfræði jókst og tók ég þá ákvörðun að bæta við mig námi í fræðunum. Það var hægara sagt en gert, þar sem nám í heyrnarfræði er ekki í boði hér á landi. Eftir langa leit að hentugu námi fann ég háskóla í Edinborg þar sem ég gat stundað nám með vinnu.“

Aðspurð segir Anna Linda að það hafi vissulega tekið á að setjast aftur á skólabekk. „Ég hef alltaf haft gaman af því að læra og námið átti vel við mig. Ég sinnti áfram starfi mínu hjá Heyrnartækni og flaug reglulega til Edinborgar, sem er í dag ein af mínum uppáhaldsborgum. Námið var strangt en stöku sinnum gafst mér tækifæri til að fara í verslanir í borginni og það má segi að þar hafi ég fallið fyrir breskri fatahönnun.

Gylltu hnapparnir á jakkanum undirstrika glæsilegan og þetta hönnun frá Holland Cooper, blússan frá Stenströms, stílhreina pilsið er frá Boss og sólgleraugun Balenciaga. Skórnir frá Högl.

Í Edinborg uppgötvaði ég Holland Cooper-merkið sem ég held mikið upp á í dag. Fötin eru framleidd í Bretlandi og gylltir hnappar eru einkennandi fyrir fatnaðinn, hvort heldur sem er á peysum, jökkum eða pilsum. Í Edinborg er einnig að finna flotta L.K. Bennett verslun en þeirri hönnun hafði ég kynnst áður.“

Ómetanlegur ferfættur félagi

Hreyfing og líkamsrækt er Önnu Lindu hugleikin og hefur hún alla tíð stundað reglubundna heilsurækt. „Ég hef nánast alla mína tíð haft áhuga hreyfingu og líkamsrækt en í dag stunda ég aðallega hlaup þó svo að ég grípi öðru hvoru í lóðin. Minn aðalhlaupafélagi í dag er hann Baron, írskur setter, en þessa tegund hunda hef ég átt í fjölda ára. Ég er mikil hundakona og finnst ómetanlegt að eiga ferfættan félaga sem fer með mér daglega í göngutúra.“

Tónlist er líka partur af lífi hennar og hefur Anna Linda lengi haft mikinn áhuga á tónlist og hefur gaman af því að hlusta á klassík og djass. „Fyrir nokkrum árum ákvað ég að láta draum minn rætast og fara að læra að spila á píanó. Ég stundaði nám hjá kennara í tónlistarskólanum í Garðabæ og fór einnig í FÍH, þar sem ég lauk grunn- og miðstigsprófi í tónfræði og tónheyrn. Ég varð að gera hlé á píanónáminu meðan ég stundaði nám í heyrnarfræði þar sem lítill tími gafst til æfinga. Ég stefni þó að því að taka aftur upp þráðinn því ég hef afskaplega gaman af því að spila.“

Kjóllinn frá LK Bennett klæðir Önnu Lindu vel og beltið ásamt veskinu frá Louis Vuitton setja punktinn yfir i-ið. Skórnir eru frá Christian Louboutin.

Kvenleg og klassísk snið

Aðspurð segist Anna Linda ávallt hafa haft skoðun á því hvernig fötum hún vilji klæðast. Þegar hún er beðin að lýsa sínum fatastíl segir hún hann vera klassískan. Þegar kemur að því að velja snið sem heilla hana mest má segja að það séu kvenlegar línur. „Ég klæðist gjarnan pilsum og silkiblússum í vinnunni og fer afar sjaldan í buxur, nema þá helst um helgar þegar ég er uppi í bústað. Kvenleg snið sem draga fram fallegar línur heilla mig frekar en pokaleg föt. Ég hef mikið dálæti á kjólum og á orðið ágætis kjólasafn.“

Áttu þér þínar uppáhaldsflíkur?

„Mikael Aghal-kjóll sem ég keypti fyrir fertugsafmælið mitt er í miklu uppáhaldi, sem og silkikjóll sem ég keypti í Matthildi fyrir útskriftina mína í Edinborg. Einnig held ég mikið upp á rauðköflóttan jakka frá Holland Cooper.“

Baron er mikill vinur Önnu Lindar og hér eru þau svo glæsileg og um leið töffaraleg saman. Anna Linda klæðist hér fallegum rauðum jakka með köflóttu mynstri og gylltum hnöppumi frá einum af sínum uppáhaldshönnuðum, Holland Cooper.

Áttu uppáhaldshönnuð?

„L.K. Bennett, Holland Cooper, By Malene Birger, Temperley London og Louis Vuitton.“ Það tískuvörumerki sem heillar Önnu Lindu mest er Chanel.

Þegar kemur að litavali, fylgir þú tískustraumunum eða áttu þér þína uppáhaldsliti sem þér finnst klæða þig best?

„Ég vel mér gjarnan blússur í lit og svart pils við eða öfugt. Fer sjaldnar en áður í allt svart. Kampavínsgylltur, hvítur, smaragðsgrænn, fölbleikur, rauður og dökkblár eru litir sem ég held upp á.“

Hvernig myndir þú lýsa skótískunni sem þú heillast helst af?

„Ég heillast mest af skóm frá Christian Louboutin en daglega geng ég oftast í Stuart Weitzman rúskinnsstígvélum eða hælaskóm frá sama merki. Ótrúlega þægilegir og vandaðir skór. Strigaskó fer ég bara í ef ég er að fara út að hlaupa eða ganga með hundinn.“

Þegar þú velur þér fylgihluti hvað finnst þér vera ómissandi að eiga í dag?

„Fallegar töskur, belti, klúta, úr, skartgripir ásamt sólgleraugum eru ómissandi fylgihlutir.“