Kvikmyndir

Raya og síðasti drekinn

★★★

Leikstjórn: Don Hall, Carlos López Estrada

Leikarar: Kelly Marie Tran, Awkwafina, Gemma Chan

Eftir að hafa heimsótt hvern einasta kastala Evrópu hefur Disney nýlega verið að dýfa tánum í nýjar og framandi slóðir, nú síðast í Pólýnesíu í hinu stórskemmtilega ævintýri Moana. Í þetta skipti er ferðinni heitið ofan í austrænan goðsagnasuðupott í Rayu og síðasta drekanum.

Landið Kumandra naut áður velmegunar í skjóli góðhjartaðra dreka en hnignaði þegar þeir hurfu eftir baráttu við ill öfl. Landið skiptist í kjölfarið í fimm hluta sem elda grátt silfur. Söguhetjan Raya fylgist með því hvernig tilraunir föður hennar til að sameina landið á nýjan leik misheppnast vegna vantrausts mannfólksins og illu öflin dúkka aftur upp. Nú er það undir Rayu og litskrúðugu föruneyti hennar komið að bjarga heiminum og sameina landið á ný.

Blessuð börnin

Raya og síðasti drekinn er líklega best útlítandi mynd sem Disney hefur gefið frá sér í þrívídd. Umhverfið er bæði fjölbreytt og gullfallegt og mikil natni hefur verið lögð í öll smáatriði. Persónurnar eru lifandi og skemmtilegar og allur hasar er vel útfærður. Sögusviðið er innblásið af menningu fjölda Austurlanda og það er augljóst að eins og í Moana hefur Disney lagt mikla heimavinnu í að gæta þess að nálgast viðfangsefnið af virðingu.

Drekinn Sisu heillar áhorfendur fyrirhafnarlítið enda einhvers konar My Little Pony í drekalíki með feld sem gæti verið unninn úr kjólnum hennar Elsu í Frozen.

Það er því synd að ekki virðist hafa verið jafnmikil vinna lögð í handritið þar sem úir og grúir af alls kyns klisjum. Raya og félagar ferðast heimshorna á milli í tilkomumiklum ratleik sem er reglulega brotinn upp, með boðskapnum um að við verðum öll að læra að treysta hvert öðru.

Uppbygging sögunnar minnir helst á tölvuleik þar sem, að settu takmarki náðu, er ferðast yfir í næsta borð. Þótt myndin sé ætluð yngri kynslóðinni hefur ráin verið hækkuð allverulega á síðustu árum og því er engin afsökun að um barnamynd sé að ræða.

Grípandi heimur

Það er þó óþarfi að rægja síðasta drekann nokkuð frekar, sem er á heildina litið vel heppnuð ævintýramynd, sem á frábæra spretti inn á milli. Raya og félagar lenda í alls kyns hasar á spennandi stöðum, á borð við þjófabæli í eyðimörkinni, fljótandi stórborg og í frosnum bambusskógi. Þá er eltingaleikurinn við apakettina og þjófótta smábarnið sérstaklega minnisstæður.

Mögulega hefði sagan gengið betur upp sem þáttaröð þar sem betur hefði mátt skoða hvert heimshorn og persónurnar fengið svigrúm til að njóta sín. Það er þó aldrei að vita nema Disney heimsæki Rayu og Kumöndru aftur einhvern tímann í framtíðinni, miðað við gassaganginn í músinni þessa dagana.

Niðurstaða: Gullfallegt og skemmtilegt ævintýri sem geldur fyrir klisjur í handriti.