BMX-ið dró okkur saman og við urðum vinir út frá því, segir Benedikt Benediktsson sem skipar þríeykið BMX BRÓS, ásamt Magnúsi Bjarka Þórlindssyni og Antoni Erni Arnarsyni.

Félagarnir prjónuðu inn á sjónarsviðið árið 2015, þegar þeir lentu í öðru sæti í hæfileikakeppninni Ísland Got Talent, en hafa síðan þá haldið fjölda sýninga og námskeiða. Þeir verða með sýningu á Árbæjartorgi klukkan 11 í dag og er sýningin hluti af Barnamenningarhátíð Reykjavíkurborgar. Minna hefur verið að gera hjá brósunum í ár vegna faraldursins, miðað við undanfarin ár, en segir Benedikt þó að bókanirnar séu nú allar að koma til.

Dagskráin í dag hefst á tuttugu mínútna BMX-sýningu þar sem brósarnir munu leika listir sínar með tilheyrandi stökkum og öðrum kúnstum. „Sumt af þessu er frekar hættulegt,“ segir Benedikt, en tekur hlæjandi fyrir að stokkið verði í gegnum logandi hringi. „Við höfum reyndar pælt í að gera eitthvað í þá áttina, en ekki látið verða af því. Við ætlum samt að gera heljarstökk, snúa okkur í hringi og alls konar annað.“

BMX BRÓS taka líka iðulega stökk yfir sjálfboðaliða, allt að tuttugu talsins, og segir Benedikt að flestir séu almennt til í það. „Það kemur nú alveg fyrir að krakkar hætti við á síðustu stundu og hlaupi í burtu, en það er nú almennt traust sem fólk ber til okkar enda er þetta þaulæft.“

Eftir að sýningunni lýkur verður svo stutt námskeið fyrir krakka, þar sem þeim verður leyft að prófa hjólin og brósarnir munu leiða þau í gegnum þrautabrautir.

En hvernig er best fyrir áhugasama að koma sér inn í þessa senu?

„Við höfum verið að bjóða upp á æfingar einu sinni í viku á veturna þar sem hægt er að fá lánað hjól, svo það er hægt að æfa BMX,“ segir Benedikt, sem mælir með að áhugasamir kaupi notað hjól til að byrja með til að sjá hvort áhugamálið henti þeim. „Ef þú fílar þetta ekki þá ertu að minnsta kosti ekki búinn að eyða allt of miklum fjármunum í það.“

Margir komast þó inn í BMX- senuna með kalda vatninu. „Þetta er svipað og með sport eins og hjólabretti eða snjóbretti. Þú hittir félagana og ert að leika þér og hægt og rólega þá kemur þetta. Það er einmitt þannig sem við komumst inn í þetta fyrir þrettán árum.“

Senan á Íslandi er þó ekki stór. „Af fólki á okkar aldri þekkjum við nánast alla með nafni og kennitölu,“ segir Benedikt. „Þegar menn verða tuttugu og fimm ára þykjast þeir allt í einu hafa mikilvægari hnöppum að hneppa en að leika sér á allt of litlu hjóli.“