Ég hef alltaf verið mikil kuldaskræfa en ákvað samt að láta mig hafa það að stunda ísböð í þeirri von að öðlast betri heilsu,“ segir Lea Marie Galgana en fjögur ár eru frá því hún var greind með vefjagigt sem hafðu mikil áhrif á lífsgæði hennar. Í sumar synti Lea í Jökulsárlóni og baðaði sig í fossum víðsvegar um landið og segir fátt toppa þá reynslu. „Áður fyrr fannst mér fólk alveg galið að synda í ísköldu lóninu en það er ótrúleg upplifun. Svo finnst mér fossar æðislegir. Það er svo mikill kraftur í þeim. Helgufoss í Mosfellsdal er fyrsti fossinn sem ég fór í og hann var þá í klakaböndum. Því fylgdi ótrúleg vellíðan og eftir það varð ekki aftur snúið. Ég er strax farin að hlakka til vetrarins og kuldans sem honum fylgir,“ segir Lea sem hefur ekki liðið jafnvel í langan tíma.

Vefjagigt vegna álags

Lea veiktist fremur skyndilega af vefjagigt og telur það hafa verið vegna álags í vinnu og einkalífi. „Ég var að keyra á hraðbraut í útlöndum þegar ég datt allt í einu út og mundi ekki hvar ég var. Miklir liðverkir komu síðan í kjölfarið, fljótlega gat ég varla gengið og þurfti aðstoð við að komast á klósett og í sturtu. Þetta var rosalega skrýtið tímabil og heilsan fór hratt niður á við,“ rifjar Lea upp en hún hefur verið misslæm af vefjagigtinni í gegnum tíðina.

„Ég fékk mikið áfall þegar gigtarlæknirinn minn sagði mér að sætta mig við að líklega gæti ég ekki gengið óstudd það sem eftir væri. Við þær fréttir ákvað ég að reyna að komast í gegnum þessi veikindi á þrjóskunni. Ári síðar var ég komin upp á Hvannadalshnúk en svo hrundi heilsan aftur. Um síðustu áramót lenti ég inni á sjúkrahúsi vegna verkja. Það tók viku að verkjastilla mig en ég þoldi lyfin mjög illa og varð veik af þeim. Ég hafði margsinnis lesið og heyrt að köld böð geti gert fólki með vefjagigt gott og sumir jafnvel alveg náð sér. Mér fannst ég því ekki hafa neinu að tapa með því að prófa köld böð en átti mjög erfitt með að taka fyrsta skrefið því mig hryllti við kuldanum. Ég fann að ég varð að fá hjálp andlega séð til að þola kuldann,“ greinir Lea frá.

Ákvað að læra kuldaþjálfun 

„Það er ótrúlegt hvernig lífið fer stundum en þegar ég var í þessum hugleiðingum birtist viðtal við Vilhjálm Andra Einarsson, sem er þekktur sem Andri Iceland, á Stöð 2 þar sem hann talaði um að köld böð hefðu hjálpað honum við verkjum. Ég ákvað að fara á fyrirlestur hjá honum en þá var uppselt svo ég komst ekki. Nokkrum dögum seinna sé ég auglýsingu frá Primal Iceland um fyrsta Wim Hof námskeiðið á Íslandi sem Þór Guðnason leiddi. Þar er kennd sérstök kuldaþjálfun og öndunaræfingar sem eiga að draga úr verkjum og stuðla að meiri vellíðan. Það varð til þess að ég ákvað að prófa ísböð og skráði mig á námskeiðið. Ég hætti að taka nær öll verkjalyf um leið og ég byrjað á námskeiðinu, þótt ég ætti erfitt með að koma mér þangað og sitja í tímum og hlusta á kennarann. Í fyrstu vikunni upplifði ég augnablik þar sem ég var verkjalaus í fyrsta sinn í fleiri mánuði. Á þriðju vikunni fann ég svo fyrir löngun til að fara að ísbað. Ég átti erfiðan dag og komst varla fram úr vegna verkja en um leið og ég fór í sundlaugina og gerði öndunaræfingarnar dró úr vanlíðaninni. Svo fór ég í kalda pottinn og við það hurfu verkirnir, þokan og þreytan. Ég vissi ekki að kælingin gæti haft þessi áhrif á mig. Ekkert lyf hafði gert þetta fyrir mig. Ég fann þá að þetta virkar fyrir mig, hætti að taka gigtarlyfin og þetta ætlaði ég að halda áfram að gera,“ segir Lea ákveðin.

Allir geta meira en þeir halda 

Strax í upphafi námskeiðsins fóru þátttakendur saman í kaldan pott en Lea treysti sér ekki lengra út í en upp að hnjám. Í fjórða tímanum gat hún setið í fimm gráðu heitum potti í klukkutíma. „Ég vildi sjá hvað ég gæti, en allir geta gert meira en þeir halda. Þetta er spurning um að þjálfa hugann ekki síður en líkamann,“ segir Lea sem núna fer þrisvar til fimm sinnum í viku í ísbað. „Undanfarna tvo mánuði hef ég ekki þurft að kæla sérstaklega út af verkjum. Ég hef alveg breytt mínum lífsstíl og fer í köldu pottana, sjósund og fossa eins oft og ég get.“

Ætlar í fjallgöngu á stuttbuxum í 20 stiga frosti 

Lea er innanhússarkitekt að mennt en hefur ekki getað stundað sína vinnu vegna vefjagigtarinnar og annarra kvilla. Hún ákvað því að nýta tímann til að læra meira um Wim Hof aðferðafræði og er nú komin í kennaranám í þeim fræðum. „Mig langaði ekki til að hanga heima og láta mér leiðast og vildi finna mér eitthvað að gera. Ég fer til Amsterdam á helgarnámskeið í næsta mánuði og á vikunámskeið til Póllands í nóvember. Þá er stefnan að ganga á hæsta fjall Póllands í 20 stiga frosti á stuttbuxum. Ég er ekkert hrædd við kuldann og þótt ég sé ekki í góðu gönguformi stefni ég á toppinn,“ segir Lea hvergi smeyk en hún lýkur prófi sem viðurkenndur Wim Hof kennari í nóvember.

„Margir hafa spurt mig út í þessi námskeið og ég veit að það næsta hefst 3. september hjá Primal Iceland. Ég er þakklát fyrir að hafa lært þessa aðferð. Þótt ég finni af og til fyrir verkjum veit ég að köld sturta og öndunaræfingar hjálpa mér til að líða betur. Það er meira en ég þorði að vona þegar ég hóf að stunda ísböð. Ég mæli eindregið með að fólk prófi ísböð, hvort sem það er til að lina verki eða öðlast betri líðan. Ef ég get það, þá geta það allir,“ segir Lea að lokum.