Bryndís Bolladóttir hönnuður hefur gert garðinn frægan um allan heim með hönnun sinni Kúlu & Línu sem hún hannaði til betri hljóðvistar í opnum rýmum og prýðir nú fjölmörg fyrirtæki og stofnanir hér á landi og ytra.

Kúla og Lína komust í fyrra í fimm manna úrslit hjá stærsta og virtasta hönnunartímariti Bandaríkjanna, Interior Design Magazine US, sem er dreift um allan heim. Þessa dagana stendur tímaritið fyrir kosningu fyrir Best of Year-verðlaunin 2019 þar sem Kúla Glass Bryndísar er tilnefnd.

Bryndís höfðar til þjóðarstolts Íslendinga og hvetur þá til að styðja íslenska hönnun í Bandaríkjunum.

„Von mín er að með stuðningi íslenska fótboltaandans takist íslenskri hönnun að vinna miklu stærri andstæðinga en ella,“ segir Bryndís.

„Ég er rosalega þakklát fyrir að vera á þessum stað við hlið stærstu fyrirtækjanna á heimsmarkaði og væntingar mínar eru að komast aftur í fimm efstu sætin svo að ég fái frekari umfjallanir í stóra hönnunarfrumskóginum.“

Kosning stendur til 18. október. Þar kýs almenningur á móti dómnefnd sem blaðið skipar og hægt er að kjósa einu sinni á 24 tíma fresti með því að fara inn á eftirfarandi link:

https://boyawards.secure-platform.com/a/gallery/rounds/22/details/29109