Leikkonan Constance Wu hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. Hún fer með aðalkvenhlutverkið í þáttunum Fresh Off the Boat sem sýndir eru á sjónvarpsstöðinni ABC. Þeir fjalla um fjölskyldu í Flórída sem eru fyrstu kynslóðar innflytjendur frá Taívan. Þættirnir eru byggðir á bókum eftir kokkinn og rappunnandan Eddie Huang.

Constance sló þó fyrst virkilega í gegn á síðasta ári þegar hún fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Crazy Rich Asians. Myndin þénaði einstaklega vel í Bandaríkjum og var söluhæst allra kvikmynda með aðalleikurum frá Austur-Asíu.

Fjölmiðlar vestanhafs birtu í gær fréttir þess efnis að Constance hafi skilið eftir sig íbúð, sem hún var með á leigu í Chelsea-hverfinu í New York, útataða í kanínuskít og -hlandi. Talsmaður hennar segir þetta alfarið rangt, kanínan hennar Constance hafi eingöngu skitið og migið í búrið sitt.

Leikkonan vonaðist eftir því að gera snúið sér alfarið að kvikmyndaleik eftir velgengni Crazy Rich Asians. Hún brást því ókvæða við þegar ABC ákvað að halda áfram með framleiðslu Fresh Off the Boat, en hún er samningsbundin um áframhaldandi leik í þáttunum skildu þeir verða endurnýjaðir. Þóttu innlegg Constance á Twitter-aðgangi hennar bera vott um mikla dívuhegðun og vanþakklæti í garð framleiðanda þáttanna.

Síðastliðna viku hafa ýmsir af fyrrum samstarfsmönnum Constance stigið fram og borið þess vitni hve erfið hún sé í samskiptum. Þeir segja að hún neiti að gera það sem hún sé beðin um og neiti að fara í viðtöl.