Vera Illugadóttir stjórnar útvarpsþættinum Gáfnaljósinu sem hefur göngu sína á mánudaginn á Rás 1. Um er að ræða hefðbundinn spurningaþátt og verður Gáfnaljós Íslands svo krýnt 17. júní. Hátt í tvö hundruð manns sóttust eftir að taka þátt.

Á mánudaginn kemur hefur göngu sína stuttserían Gáfnaljósið á Rás 1 en stjórnandi þáttarins er Vera Illugadóttir, dagskrárgerðarkona og rithöfundur. Hún heldur einnig úti einu allra vinsælasta hlaðvarpi landsins, Í ljósi sögunnar, þar sem hún fjallar um merka atburði og einstaklinga úr sögunni.

Vera lýsir þættinum sem frekar hefðbundnum spurningaþætti.

„Fyrirkomulagið er einfalt. Tveir keppendur hverju sinni, sem skiptast á að svara spurningum og safna stigum. Engar óþarfa flækjur,“ útskýrir hún.

Hverjum sem var gafst tækifæri til að sækjast eftir þátttöku í Gáfnaljósinu. Sigurvegarinn verður svo krýndur Gáfnaljós Íslands.

„Það verða nokkrar kunnar spurningakempur í bland við aðrar, sem kannski eru ekki eins þekktar,“ segir Vera.

Mikill áhugi á þátttöku

Hátt í tvö hundruð manns sóttust eftir því að taka þátt.

„Undirtektirnar komu mér mikið á óvart. Ótrúlega gaman að svo mörg skyldu hafa áhuga og bendir auðvitað til þess að það sé áhugi til staðar fyrir svona þætti,“ segir hún.

Hvernig kom hugmyndin að þáttunum til þín?

„Okkur á Rás 1 hefur lengi langað að búa til einhvers konar spurningaþátt. Og ég hef nokkra reynslu af spurningagerð svo þetta varð lendingin,“ segir hún.

Var þetta eitthvað sem þig hafði lengi langað að gera?

„Mig hefur alltént lengi langað til að það séu fleiri spurningaþættir í útvarpinu,“ svarar Vera.

Fyrsti þátturinn fer í loftið, eins og áður segir, á mánudaginn. Allt í allt eru þetta átta þættir; tveimur er útvarpað daglega fram að úrslitaþættinum, sem er svo þann 17. júní, sjálfan þjóðhátíðardaginn.

„Við vildum demba þáttunum út sem fyrst svo þau sem verða mjög spennt þurfi ekki að bíða eftir úrslitunum,“ segir hún.

Viðbrögðin komu á óvart

Nú hefur hlaðvarpsþáttur Veru, Í ljósi sögunnar, verið í hléi á meðan hún sinnir öðrum verkefnum. Þátturinn á sér dygga aðdáendur sem bíða eflaust ólmir eftir því að þeir hefjist á ný.

„Fólk er mikið að hafa samband og spyrja um þættina. Ég verð í öðrum verkefnum í sumar og fer svo auðvitað í sumarfrí, en þátturinn verður án efa aftur á sínum stað í haust,“ segir Vera.

Þegar þú byrjaðir að gera hlaðvarpsþættina, gerðir þú þér nokkuð í hugarlund hve vinsælir þeir yrðu?

„Alls ekki. Ég byrjaði að vinna á Rás 1 áður en „hlaðvarpssprengingin“ varð hér á landi almennilega og átti alls ekki von á miklum vinsældum. Sá fyrir mér að mala í viðtækið fyrir nokkrar hræður,“ segir hún.

Er ekki ótrúlega mikil vinna sem liggur að baki hverjum þætti?

„Það er mismikið, en yfirleitt mikill lestur og mikið grúsk, og svo er það auðvitað slatti bara að skrifa hvern þátt – þetta eru allnokkrar síður. En hugmyndavinnan tekur líka lúmskt mikinn tíma.“

Það verður nóg að gera hjá Veru næstu misserin.

„Næstu vikur vakna ég snemma og leysi kollega mína af í Morgunvaktinni á Rás 1, annars bara það venjulega.“

Fylgist með baráttunni um titilinn Gáfnaljós Íslands næstu daga, tveimur þáttum er útvarpað í röð hvern dag. Fyrsti þátturinn fer í loftið klukkan 14.03, beint eftir fréttir.