Bækur

Stol

★★★

Björn Halldórsson

Fjöldi síðna: 195

Útgefandi: Mál og menning

Ætli orðin ein­föld og krútt­leg séu ekki þau bestu til að lýsa fyrstu skáld­sögu Björns Hall­dórs­sonar, Stoli. Og það er kannski ekki svo vit­laust að hefja skáld­sagna­ferilinn á svo hæfi­látum nótum með lítilli, þægi­legri og ó­þvingaðri frá­sögn. Fyrir tæpum fjórum árum síðan kom út smá­sagna­safn hans Smá­glæpir.

Sagan fjallar um ungan mann, Badda, sem er ný­kominn heim til Ís­lands annars vegar til að annast dauð­vona föður sinn en einnig vegna þess að sam­band hans með kærasta sínum í New York er lokið. Sam­skipti og sam­band Badda við föður sinn, sem er með heila­æxli og með­fylgjandi mál­stol, eru í al­gjörum brenni­depli í stuttri sögunni. Bældar til­finningar beggja og ó­sagðir hlutir vega þar þyngst – þetta stereó­týpíska ís­lenska feðga­sam­band.

Saman á­kveða þeir að fara í tjald­ferð út á land eins og þeir gerðu reglu­lega þegar Baddi var yngri. Baddi, sem hafði frá upp­hafi verið skeptískur á ferðina, fer f ljótt að sjá eftir henni; krabba­mein föður hans er komið ansi langt og honum hrakar hratt. Minnis­leysi föðurins, van­geta til að tjá sig með eðli­legum hætti og glötuð geta til að stjórna eigin þvag­blöðru eru meðal þeirra þátta sem setja strik í reikning ferðarinnar en þeir eru þó smá­vægi­legir miðað við þær ó­göngur sem þeir á endanum rata í.

Frá­sögnin er byggð upp í kringum ferðina en inn á milli hleypir Baddi les­endum inn í fyrra sam­band sitt með kærastanum fyrir vestan og minningar sínar úr barn­æsku. Þessir kaflar brjóta frá­sögnina á­gæt­lega upp og hleypa meiri fjöl­breyti­leika í verkið. Þegar uppi er staðið eru þeir þó á­hrifa­litlir og gera lítið fyrir megin­frá­sögnina og því miður líka fyrir dýpt aðal­per­sónunnar Badda, sem verður að segjast nokkuð f löt. Raunar vantar nokkra dýpt í alla per­sónu­sköpun verksins; maður nær ekki þannig tenginu við nokkra per­sónu að hún skilji eitt­hvað eftir hjá manni eftir lesturinn. Það vegur þó að nokkru leyti upp á móti því að frá­sögnin sjálf er á­gæt­lega skemmti­leg. Litlu at­vikin (og sum eru kannski ekki svo lítil) í ferða­lagi þeirra feðga halda sögunni uppi og gera hana að fínustu lesningu.

Hér er ekki á ferð neitt meistara­verk en Stol er hins vegar á­gæt­lega skrifuð og krútt­leg frá­sögn af kveðju­stund feðga. Hún er stutt og ein­kennist af hálf­gerðu smá­sögu­yfir­bragði. Það verður þó að teljast allra helsti kostur hennar að höfundurinn fellur ekki í gildru til­finninga­væmni eins og hætt er við í sögu sem fjallar um eins erfitt mál­efni og kveðju­stund náinna ættingja. Þvert á móti tekst honum að halda frá­sögninni allri á á­gæt­lega léttum nótum.

Niðurstaða: Ágætlega skrifuð og krúttleg frásögn af kveðjustund feðga, sem tekur óvæntar beygjur.