Bandaríski rithöfundurinn George R. R. Martin hyggst setja Krúnuleikanna á svið.

Hann vinnur nú að leikgerð út frá skáldsögum sínum og hyggst einblína á hinar miklu burtreiðar við Harrenhal, hátíð sem gerist 16 árum fyrir fyrstu bókina, atburð sem persónur í Krúnuleikunum minnast af og til í bókunum.

Þar koma við sögur margar persónur sem aðdáendur þáttanna kannast við en frægasta atvikið á burtreiðunum var án efa fyrstu kynni Rhaegar Targaryen og Lyanna Stark, sem varð upphafið að miklu stríði. Kenning, sem hefur verið staðfest í þáttunum en ekki bókunum, er sú að Rheagar og Lyanna eru foreldrar Jon Snow.

Verkið verður sett á svið á Broadway í New York, West End í London og í Ástralíu.

Rithöfundurinn vinnur með framleiðendunum Simon Painter og Tim Laweson og fær til liðs við sig leikskáldin Duncan McMillan, sem íslenskir leikhúsunnendur þekkja vel fyrir verkin Allt er frábært, Fólk, staðir, hlutir og Lungu (einnig þekkt sem Andaðu) sem hafa öll verið sett á svið á Íslandi. Eins verður leikstjórinn Dominic Cooke með í listræna hópnum sem þróar sögu George R. R. Martin fyrir svið, en hann var áður listrænn stjórnandi Royal Court leikhússins í London.

Stefnt er á að setja verkið á svið árið 2022.