„Þetta er bara eitt fallegasta lag sem maður hefur heyrt. Algerlega á topp 20 af fallegustu lögum í heimi. Þetta er alveg epísk ballaða. Hæg, sorgleg og falleg, segir Krummi Björgvinsson um lagið Vetrarsól sem pabbi hans, Björgvin Halldórsson, gerði sígilt um leið og það kom út 1981.

Krummi ákvað eftir langa bið að láta slag standa og taka lagið sínum tökum og í dag rís sú Vetrarsól út um allan heim á Spotify og öllum helstu streymisveitum hins stafræna tónlistarheims.

„Vetrarsól hefur verið mitt uppáhaldslag alveg bara síðan ég heyrði það fyrst og ég tengi svo mikið við þetta gegnum pabba,“ segir Krummi sem ákvað að taka lagið sínum tökum og gera „einfaldari útgáfu“ eins og hann orðar það.

„Mig langaði bara að fara akkúrat í hina áttina og gera sveitatónlistarútgáfu af laginu. Ég elska bluegrass-tónlist þannig að ég ákvað bara að breyta um tóntegund og fara með það í þessa blúgrasskántrí-átt,“ segir Krummi og bætir við að þótt Vetrarsól þekkist vissulega þá sé þetta í raun „allt annað lag“.

Blágresi í genunum

Þótt Krummi feti ekki lóðbeint í fótspor föðurins undir Vetrarsólinni þá má rekja nálgun hans til föðurhúsanna og hann segist telja blue­grass-útgáfuna vera bæði eðlilega nálgun og rökrétt framhald af því sem hann hefur verið að fást við í tónlistinni.

„Ég elska þessa músík og ég náttúrlega ólst upp við þessa tónlist í gegnum pabba og mömmu frá blautu barnsbeini, en þá var þetta tónlistin sem var spiluð heima. Sérstaklega svona tónlist eins og The Band og margir fleiri. Þannig að þetta er bara alveg búið að vera í DNA-inu mínu.“

„Þannig að bluegrass-útgáfa af Vetrarsól fannst mér bara alveg frábær hugmynd. Þetta lag er náttúrlega hevídjútí og ég er loksins núna kominn út í það að einbeita mér bara að sólóferlinum mínum,“ segir Krummi og bætir við að nú stjórnist lagasmíðarnar af þorsta hans í gamaldags grasrótartónlist.

Kraumandi suðupottur

Krummi fer á háflug þegar hann talar um þær tónlistarstefnur sem hafa mótað hann kruss og þvers sem tónlistarmann en til einföldunar og að spara pláss og prentsvertu býður hann upp á regnhlífarhugtakið „americana“ en undir því rúmast þetta allt saman; blúsinn, sveitatónlistin og allt þar á milli sem rekja má til Bandaríkjanna. „Og síðan er mikið rock&roll í þessu líka,“ segir Krummi áður en hann er dreginn aftur að máli málanna og laginu sem hann gefur út í dag.

„Það er komin vetrartíð. Með veður köld og stríð. Ég stend við gluggann. Myrkrið streymir inn í huga minn…“
Mynd/Mummi Lú

„Gunni Þórðar samdi þetta lag og pabbi gerði þetta frægt á sínum tíma. Þeir unnu mikið saman og það kom fyrst á plötunni Himinn og jörð sem er frábær plata.“

Og þá vaknar lykilspurningin: Er Bó búinn að heyra þetta og hvað finnst honum?

„Hann er búinn að hlusta já,“ segir Krummi sem var þó ekkert að flýta sér að upplýsa frumflytjandann um stöðu mála. „Ég sagði honum ekkert frá þessu strax. Þetta var svolítið svona leyndarmál en ég var búinn að vera lengi með lagið á lista yfir íslensk lög sem mig langaði að „covera“ en það var ekki fyrr en Jón Gunnar Geirdal hringdi í mig sem ég ákvað að slá bara til.“

Krummi segir þetta í raun með mestu ólíkindum og að engu líkara sé en að Jón Gunnar hafi fengið hugskeyti þegar hann ákvað að stinga þeirri hugmynd að honum að hann gerði nýja útgáfu af Vetrarsól í tengslum við sjónvarpsþættina Jarðarförin mín.

„Mig langaði bara að fara akkúrat í hina áttina og gera sveitatónlistarútgáfu af laginu,“ segir Krummi sem syngur Vetrarsól allt öðruvísi en áður hefur heyrst.
Mynd/Mummi Lú

„Þetta var ótrúlegt. Bara eins og veröldin hafi einhvern veginn verið að segja manni að það væri kominn tími til að gera þetta. Það var svo skrýtið að við vorum búnir að ræða þetta í bandinu,“ segir Krummi um hugmyndir þeirra um að gera ábreiður af nokkrum íslenskum lögum, sem leggjast vel í fjöldann, til þess að hafa tiltæk á tónleikum.

„Þá gerðum við einhvern lista og eitt af fyrstu þremur lögunum sem ég skrifaði niður var Vetrarsól og þá hugsaði ég að það væri geðveikt kúl að gera bluegrass-útgáfu af því. Svona stuð útgáfu.“

Vetrarsólarsaga ódauðlegs lags

„Það er náttúrlega orginallinn,“ segir Björgvin Halldórsson, faðir Krumma, og sá sem fyrstur söng lagið Vetrarsól sem varð þá strax ódauðlegt. Lagið er eftir Gunnar Þórðarson og Ólafur Haukur Símonarson samdi textann en það kom fyrst fyrir eyru almennings 1981 á plötunni Himinn og jörð.

Björgvin Halldórsson og Jón Gunnar Geirdal eru báðir í skýjunum með nýju Vetrarsólina hans Krumma.
Fréttablaðið/Samsett

„Ég er búinn að heyra þetta og ég er ofsalega hrifinn af því hvernig Krummi og strákarnir taka á þessu. Þeir færa þetta í stílinn og breyta þessu á sinn hátt,“ segir Bjöggi og áréttar að lagið er ódauðlegt og „þetta endurnýjar bara ágæti lagsins. Við Krummi erum svolítið saman í þessum bluegrass-rótum og mér finnst bara æðislega gaman að þessu“.

„Þessi útgáfa á sér skemmtilega baksögu,“ segir Jón Gunnar Geirdal, höfundur þáttanna Jarðarförin mín, sem á sinn þátt í því að Krummi lét loks verða af því að taka sígilt lagið sem pabbi hans gerði að sínu fyrir tæpum 40 árum.

Uppáhaldslagið

„Þegar það var ákveðið við handritaskrifin í fyrra að nota upprunalegu útgáfuna af Vetrarsól í seríunni þá fékk ég þá flugu í kollinn að það væri eitthvað rómantískt við það að fá Krumma til að „covera“ lagið sem pabbi hans söng inn í þjóðarsálina fyrir 40 árum,“ segir Jón Gunnar Geirdal, höfundur Jarðarförin mín.

„Vetrarsól er uppáhalds íslenska lagið mitt. Og Krumma. Það kom í ljós í spjalli okkar þegar ég nálgaðist hann með þessa hugmynd,“ segir Jón Gunnar og bætir við að Alda Music muni gefa út sérstakan spilunarlista með lögum sem tengjast Jarðarfararþáttunum á Spotify. „En serían er stútfull af íslenskri eðaltónlist.“

Krummi er út um allt á samfélagsmiðlum og hægt er að fylgjast með honum á Instagram, Facebook, YouTube og Twitter.