Tvíeykið Krot og Krass, þau Björn Loki og Elsa Jónsdóttir, verða með listamannaspjall á sýningu sinni Múrverkið/The Concrete is Abstract, á fyrstu hæð Ásmundarsalar í dag, föstudaginn 14. ágúst, kl. 17.00. Þar fjalla þau um tilurð sýningarinnar sem inniheldur bæði myndverk, skúlptúra og bókverk. Spjallið færist svo milli staða en sýningin er staðsett á þremur stöðum í Reykjavík, Ásmundarsal, Kárastíg 1 og Brautarholti 2.

Í verkunum sækja Elsa og Loki, eins og í flestum fyrri verka sinna, í íslenskan menningararf; Höfðaletur. Höfðaletur er eina séríslenska leturgerðin og kom hún fram á 16. öld. Loki og Elsa leggja nú stund á að endurhefja þessa sérstöku hefð og byggja ofan á hana.

Síðastliðinn vetur dvöldu þau Elsa og Loki á vinnustofu í Lyon í Frakklandi. Þangað var þeim boðið til að vinna bókverk sem er myndræn rannsóknarskýrsla. Listamennirnir unnu með það að leiðarljósi að skapa sinn fyrsta þrívíða hlut: múrsteininn. Í framhaldi af útkomu bókarinnar sýndu þau verk sín í Lyon við góðar undirtektir. Hluta þeirrar sýningar má nú sjá á veggjum Reykjavík Roasters í Brautarholti 2 og á Kárastíg 1.