Albert, Völundur og Narfi, nemendur í 10. bekk í Réttarholtsskóla, stóðu fyrir gjörningi um málfrelsi í miðbæ Reykjavíkur í dag. Gjörningur var hluti af lokaverkefni nemendanna. Þá var einn úr hópnum klæddur eins og Krossfari með skilti sem á stóð: „Heilaga landið tilheyrir kristnum mönnum. Reynið að breyta skoðun minni.“ Gjörningurinn er vísun í skopmyndina eða jarmið (e. meme, borið fram „mím“) sem sést hér fyrir neðan. Þeir segja gjörninginn ekki tengjast stöðu Jerúsalem í átökum Ísraelsríkis og Palestínu.

Hættulegt að hefta málfrelsi

„Hugmyndin er að þetta er krossfari í nútímanum og fólk ýtir honum frá sér af því að hugmyndir hans er svolítið úreltar. Fólk ýtir honum yfir brúnina og þá fer verra fyrir en ef fólk hefði bara leyft honum að tala,“ segja strákarnir um gjörning hópsins og ræða um hættuna sem fylgir þöggun. Gjörningur snúist um tjáningarfrelsi og málfrelsi og er ádeila á skömmun sem fer fram á netinu og í samfélaginu.

„Það er svo oft sem fólk vill segja eitthvað en þorir því ekki því viðbrögðin geta verið svo svakaleg.“

Strákarnir nefndu dæmi um mann sem var handtekinn í Bretlandi fyrir að birta brandara á netinu. Þá hafi brandarinn farið fyrir brjóstið á mörgum og var hann fangelsaður fyrir málið.

Albert, Völundur og Narfi á Ingólfstorgi í dag.
Fréttablaðið/Ingunn Lára

Mismunandi viðbrögð

Strákarnir segja gjörninginn ekki tengjast málum Ísraels og Palestínu og trúarátökin um heilögu borgina Jerúsalem. Strákarnir segja að viðbrögðin við gjörningi þeirra sýni fram að málfrelsi sé ekki heft á Íslandi.

„En það virkar ekki vel fyrir stuttmyndina. Í sögunni á þetta að vera mikið mál og sterk viðbrögð gagnvart krossfaranum. Það kom reyndar ein kona og sá skiltið okkar og misskildi það svolítið. Hún hrópaði „Já ég er alveg sammála!“ en svo áttaði hún sig á gjörningnum og varð svolítið vandræðaleg og fór í burtu.“

Strákarnir hafa unnið saman að gjörningum og myndböndum frá því að þeir voru 10 ára og halda utan um Youtube síðu að nafni Nerd Cup. Þeir segja verk sín vera bæði gert í gríni og fyrir málefnalegar umræður.