Friðrik krónprins Danmerkur sást aka eftir Lækjargötu í miðbæ Reykjavík með stóru fylgdarliði en blaðamaður taldi tíu mótorhjól, tvo lögreglubíla, einn sérsveitarbíl og tvær rútur. Sjálfur var prinsinn á sendiráðsbílnum sem er Mercedes-Benz S-Class.

Prinsinn er með stútfulla dagskrá í dag en hann mætti eldsnemma í morgun í Grósku hugmyndahús og fór þaðan í Orkuveituna. Eftir það heimsótti Friðrik Hellisheiðarvirkjun til að kynna sér kolefnisförgun sem er tæknilausn Carbfix, dótturfyrirtækis Orkuveitunnar, sem bindur koldíoxíð varnalega í bergi á innan við tveimur árum.

Glæsilegur Guðni heilsar upp á danska dáta.
Fréttablaðið/Anton Brink

Var þá lagt af stað í Ægisgarð í skoðunarferð um borð í danska varðskipið HDMS Triton sem liggur við Reykjavíkurhöfn. Bílalestin ók framhjá skrifstofu Fréttablaðsins á leið í danska sendiráðið en þar fer fram boð sem er síðast á dagskrá hjá krónprinsinum.

Prinsinn er staddur hér á landi til að ræða loftslagsvænar orkulausnir og samstarf Íslendinga og Dana í þeim efnum. Hann lenti rétt fyrir hálfsjö í gærkvöldi og brunaði á Bessastaði til að hitta Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og Elizu Reid forsetafrú.

Þá vakti athygli að prinsinn hafi flogið til Íslands í Hawker 4000 einkaþotu frá flugfélaginu Sun Air of Scandinavia en ferðalög á slíkum einkaflugvélum hafa einmitt verið mikið gagnrýnd vegna þess hve gríðarleg losun á koldíoxíði CO2, á hvern farþega, fylgir þessum ferðamáta.

Einkaþota krónprinsins á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi.
Fréttablaðið/Anton Brink