Friðrik krónprins Danmerkur lenti á Reykjavíkurflugvelli rétt fyrir klukkan hálf sjö í kvöld og brunaði á Bessastaði að hitta Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands.

Tilgangur ferðar krónprinsins er að ræða loftslagsvænar orkulausnir og samstarf Íslendinga og Dana í þeim efnum. Athygli vekur að prinsinn flaug til Íslands á einkaflugvél en slíkar vélar hafa einmitt verið mikið gagnrýndar vegna þess hve gríðarleg losun á koldíoxíði CO2 fylgir þeim.

Prinsinn snæðir nú kvöldverð á Bessastöðum og er svo með fulla dagskrá á morgun ásamt Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, en þeir munu hitta ráðherra og fulltrúa orkufyrirtækja til að ræða málin.

Hawker 4000, flugvélin frá flugfélaginu Sun Air of Scandinavia sem Friðrik krónprins Dana kom með hingað til lands í kvöld.
Fréttablaðið/Anton Brink
Vélin lenti á Reykjavíkurflugvelli nú laust fyrir klukkan hálf sjö.
Fréttablaðið/Anton Brink