Harry Bretaprins og eiginkona hans Meghan Markle eru sögð ætlast til þess að fá að vera á svölum Buckingham-hallar við krýningu Karls konungar þann 6. maí. Heimildarmenn New York Post innan fjölskyldunnar óttast að kröfur þeirra muni hleypa þessum sögulega viðburði í háaloft.
Á dögunum var Harry og Meghan boðið í krýninguna, en svo virðist sem þau ætli ekki að gefa út hvort þau mæti eður ei fyrr en að komið verði á móts við kröfur þeirra.
Til að mynda eru þau sögð vilja að börnum þeirra, Archie og Lilibet, verði boðið, en fjölmiðlar í Bretlandi hafa greint frá því að þau hafi ekki fengið boðskort. Ekki nóg með það heldur vilja þau að á athöfninni og í viðburðum í kringum hana verði minnst á afmæli Archie, sem verður fjögurra ára á sjálfan krýningardaginn.
„Höllin er að reyna að klára viðræður eins fljótlega og auðið er. Þetta má ekki gerast á síðustu stundu því það gæti skapað mikla óreiðu,“ er haft eftir heimildarmanni.
Líkt og áður segir er það hvort Harry og Meghan fái að vera á svölunum á meðal ágreiningsefna, en almennt fá einungis starfandi meðlimir konungsfjölskyldunnar þann heiður.
„Það eru ágætis líkur á að þetta endi með pattstöðu og að þau mæti ekki. En höllin er að gera allt í sínu valdi til þess að láta það ekki gerast.“
Í morgun er síðan greint frá því í Independent að Harry sé gert að gefa fjölskyldunni 28 daga fyrirvara, hið minnsta, um það hvort hann mæti í krýningu föður síns.