Saga býflugnanna

Maja Lunde

Þýðing: Ingunn Ásdísardóttir

Fjöldi síðna: 422

Útgefandi: Mál og menning

★★★★

Á síðasta ári kom út hér á landi hin sérlega góða skáldsaga Blá eftir Maju Lunde. Sú bók er önnur bókin í fjórleik höfundar þar sem umhverfisvá er söguefni og vatnsskortur var þar í forgrunni. Fyrsta bókin í flokknum er Saga býflugnanna, sem nú kemur út í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur. Hér er á ferð verðlaunabók sem hefur verið þýdd á rúmlega 30 tungumál.

Saga býflugnanna gerist bæði í fortíð og framtíð. Á Englandi árið 1852 er William, sem glímt hefur við þunglyndi, að hanna býflugnabú. Í Bandaríkjunum árið 2007 reynir George a viðhalda býflugnarækt. Í Kína árið 2098 vinnur Tao við að handfrjóvga ávaxtatré.

Tvær af þremur aðalpersónum bókarinnar eru karlmenn, flóknir og erfiðir persónuleikar, sem Lunde tekst einkar vel að gera ljóslifandi. Báðir eiga stirt samband við son sinn. Hin kínverska Tao á einnig son, mjög ungan, sem hún ann mjög, en svo skellur ógæfan yfir.

Eins og titill bókarinnar ber með sér koma býflugur þar mjög við sögu. Lunde hefur greinilega lagst í mikla heimildavinnu og lesandinn verður margs fróðari um sögu býflugna. Þeir sem alls engan áhuga hafa á þessari dýrategund ættu ekki að láta það áhugaleysi fæla sig frá lestrinum. Hér er einfaldlega dæmi um höfund sem kann listavel að færa efni sitt í aðlaðandi og áhugaverðan búning.

Lunde er ástríðufullur umhverfisverndarsinni, sem er vissulega bæði göfugt og gott, en sú ástríða er ein og sér engin trygging fyrir góðri skáldsögu. Hæfileikar hennar á ritvellinum: léttur og áreynslulaus stíll, góð persónusköpun og hæfileiki til að skapa spennu, gera að verkum að sagan ratar beint til lesandans. Undir lokin er ákveðin tenging milli hinna þriggja sagna sem gerast á svo ólíkum tímum.

Besti hluti sögunnar er framtíðin sem Lunde lýsir í köflunum sem tengjast Tao. Þar ríkir spenna og óhugnaður, sérstaklega undir lokin þegar höfundur lýsir skelfilegri þróun sem varð vegna yfirgangs mannsins.

Saga blýflugnanna er verulega minnisstæð bók, sem svo sannarlega á erindi.

Niðurstaða: Kröftug skáldsaga um umhverfisvá sem vofir yfir mannkyninu. Læsileg og spennandi með vel dregnum aðalpersónum.