Þegar öllum kvikmyndahúsum er lokað um óákveðinn tíma eru góð ráð dýr en sem betur fer hafa efnisveitur og framleiðendur upp til hópa brugðist skjótt við og dælt út fersku og góðu efni í bland við gamalt sem eins og gengur eldist misvel eftir því hver er að horfa.

Gullregn leikstjórans Ragnars Bragasonar er ein þeirra bíómynda sem voru „í ljósi stöðunnar í samfélaginu“ gerðar aðgengilegar á VOD-leigum Símans og Vodafone á undan áætlun.

Fréttablaðið mælir óhikað með Gullregni sem fékk fjórar stjörnur í gagnrýni blaðsins í janúar þar sem niðurstaðan var: „Vel heppnuð yfirfærsla Ragnars Bragasonar á eigin leikriti af sviði á tjald er grátbrosleg staðfesting þess að ádeilutónn Gullregns hljómar jafn skýrt tæpum áratug eftir að það sló í gegn í Borgarleikhúsinu.“

Vanir leikarar, vönduð vinna

Sigrún Edda Björnsdóttir fer fyrir góðum hópi leikara í hlutverki „kerfisfræðingsins“ Indíönu en hún endurtekur þarna rulluna sem hún fór með á sviði Borgarleikhússins. Rétt eins og Hallgrímur Ólafsson, Halldóra Geirharðsdóttir og fleiri en pólska leikkonan Karolina Gruszka bætist ný í leikhópinn og setur eftirminnilegt mark á myndina.

Halldóra „sýnir magnaðan raðsenuþjófnað með kostulegum tilþrifum“, eins og það var orðað í dómi Fréttablaðsins. „Hún stígur stirðan listdans milli hins kómíska og tragíska framan af en setur undir lokin í fimmta gríngírinn þegar Jóhanna verður ofboðslega afhjúpandi hreyfiafl í sorgarsögunni.“

Halldóra er ekki einu sinni eini senuþjófurinn þannig að það er vel óhætt að mæla með að fólk horfi á Gullregnið frekar en nöturlegt fjúkið fyrir utan gluggann. „Halldóra er þó ekki eini senuþjófurinn undir gullregninu þar sem pólska leikkonan Karolina Gruszka glansar í öllum sínum atriðum í hlutverki löndu sinnar, Daniellu.“