Kristjana býr og starfar í Ber­lín þar sem hún hannar fyrir fata­merkið DSTM sem stendur fyrir Don’t shoot the mess­en­ger. Þó svo að Kristjana starfi sem fata­hönnuður hefur hún í gegnum feril sinn reglu­lega tekið að sér verk­efni sem snúa að búninga­hönnun og segir það gott fyrir list sína að gera það af og til.

„Þegar ég kem til baka úr svona verk­efni er ég svo full af inn­blæstri og krafti. Þetta er í annað sinn sem ég geri þetta. Sam­starfs­kona mín hefur gert þetta af og til. Við fórum saman í fyrra en ég fór ein í ár. Maður kynnist þarna fólkinu og það er margt sem dregur að. Ég er strax farin að huga að næstu há­tíð núna, þetta er svo skemmti­legt,“ segir Kristjana.

Starf hennar á há­tíðinni var í búninga­deildinni sem sér um búninga fyrir alla dansara sem koma fram.

„Stór­stjörnurnar eru í tísku­fatnaði þannig að við sjáum bara um dansara. Annað hvort að hanna fötin, stílí­sera þau eða breyta og laga það sem þau eru í. Þetta eru alls konar til­fallandi verk­efni líka. Það getur alveg komið eitt­hvað upp hjá stór­stjörnunum og þá þarf maður að vera til­búinn til að stökkva í það. Að sauma fötin utan á þau rétt áður en þau fara upp á svið,“ segir Kristjana og því sé rík krafa um að geta sinnt fjöl­breyttum störfum meðan á há­tíðinni stendur.

Dansararnir voru flottir á sviði.
Fréttablaðið/Getty

Fær út­hlutað at­riði

Hver starfs­maður í búninga­deild fær út­hlutað at­riði og hún fékk í ár at­riði David Guetta og Bebe Rexha en þau gáfu ný­lega út lagið I’m Good. Kristjana segir að klæðnaður dansaranna á há­tíðinni hafi verið inn­blásinn af búningi söng­konunnar í mynd­bandi sem fylgir laginu en það er ekki enn komið út.

Hún segist mjög á­nægð með út­komuna en hún hefur þó að­eins séð at­riðið á mynd­bandi þar sem hún þurfti að vera til bak­sviðs á meðan því stóð.

„Maður tók við dönsurum bak­sviðs með tárin í augunum. Ég er svaka­lega á­nægð með út­komuna. Það var yndis­legt að sjá líka hversu glöð þau voru.“

Mikil vinna en vel þess virði

Kristjana segir að það sé svaka­leg vinna að taka þátt í svona verk­efni. Hún hafi verið í vinnu í Dus­seldorf í fimm daga á þessu ári og að dagarnir hafi verið mjög langir.

Stundum þarf maður að passa sig að vera eðli­legur. Þegar maður er að taka málin af ein­hverjum stór­stjörnum. Bak­sviðs sér maður þau og vinkar feimnis­lega

„Það er alveg þess virði. Það er séð vel um mann hvað varðar mat og drykk. Svo er þetta svo ó­trú­lega skemmti­legt að þú finnur í raun ekki fyrir þreytunni fyrr en þú kemur upp á hótel, eða bara hrein­lega heim eftir að þessu er lokið.“

Á há­tíðinni komu fram stór­stjörnur eins og Taylor Swift, David Guetta, Lewis Cap­aldi og Kalush Orchestra frá Úkraínu. Kristjana segir að í sam­ræmi við það sé öryggis­gæslan svaka­lega mikil en að þau sem starfi í búninga­hönnun hafi að­gang að öllum svæðum svo þau geti sinnt hverju og hverjum sem er.

Kristjana á fullu á hátíðinni.
Fréttablaðið/Getty

„Stundum þarf maður að passa sig að vera eðli­legur. Þegar maður er að taka málin af ein­hverjum stór­stjörnum. Bak­sviðs sér maður þau og vinkar feimnis­lega. Maður fær auð­veld­lega stjörnur í augun,“ segir Kristjana og hlær.

Hún segir frá einu at­viki þar sem hún var að labba bak­sviðs með fullar hendur af búningum og rakst í mann sem sneri sér við.

„Þá var það Taika Wai­titi sem var kynnir á há­tíðinni.“

Lagið er hægt að horfa á hér að neðan og atriðið á MTV hátíðinni er hægt að horfa á hér.