„Sagan byrjar eigin­lega árið 2011 þegar ég var 15 ára gamall,“ segir Kristinn Sig­mars­son sem er nýjasti gesturinn í hlað­varps­þætti Sölva Tryggva­sonar. Kristinn segir meðal annars frá bar­áttu sinni við þung­lyndi en ó­hætt er að segja að hann hafi snúið lífi sínu gjör­sam­lega við. Í dag rekur hann heilsu­fyrir­tæki og hjálpar öðru fólki.

„Ég var feitur tölvu­nörd og átti ekki marga vini,“ segir Kristinn um þetta tíma­bil árið 2011.

Lífið snerist um tölvuleiki

„Líf mitt snerist al­gjör­lega um tölvu­leiki. Ég var bæði ó­heil­brigður and­lega og líkam­lega. And­lega var ég að flýja allt sem heitir á­byrgð og að takast á við hluti. Ég var alltaf að ljúga því að ég væri veikur til þess að þurfa ekki að fara í skólann. Hitti aftur og aftur lækna og reyndi að fá þá til að skrifa upp á vott­orð fyrir mig svo að ég gæti bara verið enn meira í tölvunni minni. Að endingu var ég kominn á þann stað að ég hafði ekkert að lifa fyrir lengur. Fyrir mér var ég bara feitur aumingi með fé­lagskvíða og mikið sjálfs­niður­rif. Ég hataði sjálfan mig og langaði ekki að lifa lengur, þannig að það væri bara best að enda þetta. Ég valdi daginn sem ég ætlaði að drepa mig. En þegar ég var á leiðinni heim úr skólanum þennan dag var eins og ég fengi þrumu í líkama minn af ljósi og ég fann að það var eitt­hvað meira við lífið og á­kvað strax að gefa mér annað tæki­færi,“ segir hann.

Eyddi öllum leikjunum og gaf sér séns

Kristinn segir að á þessu augna­bili hafi allt breyst og þarna hafi kviknað von um að hann gæti átt betra líf. Hann brunaði heim, eyddi öllum tölvu­leikjunum sínum og á­kvað að gefa sér einn séns í við­bót.

„Ég á­kvað að gefa mér eitt ár í við­bót og byrjaði að „gúggla“ leiðir til að læra að tala við fólk, grennast og verða betri. Allt þetta sumar var ég eins og óður maður að kynna mér allt sem sneri að „per­sonal de­velopement“, Svo byrjaði ég að fá já­kvæð við­brögð frá fólki og setti sjálfum mér fleiri og fleiri á­skoranir til að bæta mig. Á 6 mánuðum sneri ég lífi mínu gjör­sam­lega við og var orðinn hamingju­samur haustið eftir að ég hafði ætlað að drepa mig.”

Kristinn, sem er enn mjög ungur að árum, hefur skila­boð til þeirra sem eru á svipuðum stað og hann var á þegar dalurinn var dýpstur:

„Ef ég væri að tala við ein­hvern núna sem er í svipuðum sporum og ég var í þegar mér leið sem verst, myndi ég segja við­komandi að lífið er leikur alveg eins og í tölvu­leikjum eða því sem fer fram í gegnum skjáinn. Það er hægt að færa at­hyglina yfir á að bæta sig stöðugt í al­vöru leiknum sem er lífið og þá fær maður miklu stærri verð­laun en með því að bæta sig í tölvu­leikjum. Ég veit að það getur verið erfitt að hætta ein­hverju sem maður er fíkill í, en það er hægt að byrja á að taka eitt skref í einu og vinna sig hægt og ró­lega inn í betri líðan.“

Stjórnumst af áliti annarra

Spurður um hvaða skila­boð hann myndi vilja senda til fólks ef eyru allra væru opin svarar hann:

„Vertu þú sjálfur! Við stjórnumst svo mikið af á­liti annarra, en hvað myndi gerast ef þú myndir vakna á morgun og þér væri alveg sama hvað öðrum fyndist og þú myndir bara hlusta á þína eigin rödd. Hvernig myndir þú klæða þig? Hvað myndir þú vinna við? Hvað myndir þú vilja gera við lífið þitt? Ef þú færir út úr þæginda­rammanum og myndir mæta ótta þínum, gæti verið að stór­kost­legir hlutir myndu gerast? Ég trúi því að við komum öll hingað sem sálir í manns­líkama og við erum með hjarta. Ef við náum að hlusta á hjartað okkar nógu vel munum við finna hlutina sem okkur er ætlað að gera. Við komum ekki hingað til að passa inn í ein­hvern ramma. Við erum öll með gjafir innra með okkur, en því miður taka flestir þessari gjafir með sér í gröfina, án þess að ná að deila þeim. Allt af ótta við að vera hafnað.”

Þáttinn með Kristni og alla aðra þætti Sölva Tryggva­sonar má nálgast á heima­síðunni: sol­vi­tryggva.is