Kristín Pétursdóttir, leikkona, gefur lítið fyrir ákvörðun Neytendastofu um að hún hafi brotið lög um duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum. DV greindi fyrst frá.

Líkt og greint var frá í gær ákvarðaði Neytendastofa að Kristín hafi brotið lög með umfjöllun um sjö fyrirtæki á Instagram. Í svari Kristínar til stofnunarinnar segir að hún skilgreini sig ekki sem áhrifavald, hún sé leikkona og noti Instagram til að koma sér á framfæri.

Þá rak Kristín hvernig hún fékk vörurnar, þar á meðal afslætti og gjafir frá Húrra Reykjavík, Blómahönnun og Gallerí 17, máltíðir frá Yuzu burger og Reykjavík Meat.

#mjogdyrtbensinið

Í færslu á Instagram í gær birti hún myndir af sér og vinkonu sinni á ferðalagi. Fyrir neðan setti Kristín nokkur myllumerki, myllumerki sem túlka má sem háðsdeilu á niðurstöðu Neytendastofu. Um er að ræða myllumerkin: #ekkiad, #borguðumsjalfar #mjogdyrtbensinið og #ónefnttómataplace.

Í úrskurðinum segir að auglýsingar á samfélagmiðlum verði að vera skýrlega merktar sem slíkar. „Merkingin þarf að vera vel staðsett, hafa nægjanlega stórt letur og vera í skýrum lit.“ Segir í ákvörðuninni að Kristín hafi brotið ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Ábyrgð liggi einnig hjá fyrirtækjunum

Arna Þorsteinsdóttir, meðeigandi Sahara, sagði í þættinum Reykjavík síðdegis í gær að reglurnar væru ekki aðgengilegar. „Þess vegna verður til þessi misskilningur, að færslur séu ekki rétt merktar eða eru ekki merktar yfir höfuð,“ sagði Arna. „Ég held að það þurfi betra samtal á milli Neytendastofu og áhrifavalda.“ Sahara hefur haft milligöngu um stóra samninga á milli áhrifavalda og fyrirtækja.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Neytendastofa kemst að svipaðri niðurstöðu, áhrifavaldar á borð við Sólrúnu Diego og Lína Birgitta auk rapparans Emmsjé Gauta, hafa fengið á sig úrskurði tengda dulinni markaðssetningu á samfélagsmiðlum.

Arna segir að ábyrgðin liggi einnig hjá fyrirtækjunum, nefndi hún sérstaklega fyrirtækið Blómahönnun sem gáfu Kristínu blómvendi, Kristín deildi því svo á samfélagsmiðlum án þess að merkja það sem auglýsingu. „Þá er þetta orðið samstarf, því þetta er gjöf, sem er greiðsla. Þarna finnst mér að ábyrgðin hljóti að liggja hjá lögaðilanum. Lögin þurfa að ganga á báða bóga.“