Fyrsta myndin af bandarísku leikkonunni Kristen Stewart sem Díana prinsessa af setti ævisögumyndarinnar Spencer hefur nú verið birt. Þykir Stewart sláandi lík prinsessunni heimsfrægu.
Á vef Deadline kemur fram að tökur á myndinni standi nú yfir í Þýskalandi. Til stendur að framleiðsluteymið færi sig því næst til Bretlands.
Myndin mun eiga sér stað á þriggja daga tímabili við Sandringham höll bresku konungsfjölskyldunnar, snemma á tíunda áratugnum. Segir í frétt miðilsins að aðalviðfangsefni myndarinnar verði tíminn þar sem Díana tók ákvörðun um að segja loksins skilið við Karl Bretaprins.
Pablo Larraín fer með leikstjórn myndarinnar, en hann leikstýrði kvikmyndinni Jackie, um Jackie Kennedy, bandarísku forsetafrúna. Með önnur hlutverk í myndinni fara Timothy Spall, Sally Hawkins og Sean Harris. Framleiðendur hafa ekki gefið upp hver fer með hlutverk Karls Bretaprins.
Kristen Stewart is Diana, Princess of Wales, in Pablo Larraín’s SPENCER. pic.twitter.com/ldpNLOGhOt
— NEON (@neonrated) January 27, 2021