Óhætt er að segja að Kristbjörg Kjeld sé ein ástsælasta leikkona Íslands. Á áratugalöngum ferli hefur hún leikið hlutverk í mörgum helstu leiksýningum sem sett hafa verið á svið hér á landi og hlotið urmul verðlauna fyrir frammistöðu sína. Segist hún ekki hafa tölu á þeim í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins sem lesa má í heild sinni á mbl.is.
„Ég hef ekki tekið það saman, enda er ég lítið fyrir það að grúska í því sem liðið er. Ég horfi meira fram á við og þegar maður er þetta fullorðinn lifir maður í núinu,“ segir Kristbjörg. Hún hefur eins og við má búast lent í ýmsu á ferlinum enda ýmislegt sem getur farið úrskeiðis á sviðinu.

„Þegar mistök eiga sér stað á sviði þarf maður einhvern veginn að bjarga því,“ segir hún. Síðastliðin ár hefur Kristbjörg einkum leikið á hvíta tjaldinu og segir auðveldara að leika í kvikmyndum, þar sem hún sé hrædd um að muna ekki textann. Þó leikur hún þessa dagana í verkinu Er ég mamma mín í Borgarleikhúsinu.
Þrátt fyrir að vera hokin af reynslu segir Kristbjörg alltaf verið taugaóstyrk er hún stígur á svið.
„Ég hef alltaf verið mjög nervös að stíga á svið og er það enn þann daginn í dag. Það er partur af þessu og bara gaman,“ segir Kristbjörg í viðtalinu við Morgunblaðið.