Kristbjörg er ein af þeim sem hefur alltaf verið föndrandi gegnum lífið. „Ég get ekki sagt hvenær þetta byrjaði hjá mér, en ég held hreinlega að þetta hafi alltaf verið í blóðinu,“ segir Kristbjörg, sem stofnaði Facebook-síðu í sumar þar sem hún sýnir loks öllum sem hafa áhuga verkin sín. Oftar en ekki sýnir hún hlutinn eins og hann var áður og svo hvernig hann lítur út eftir breytinguna. Þá lýsir hún ferlinu enn fremur og segir frá á hverju gekk.

Kristbjörg hefur gífurlega gaman af því að föndra og er alltaf með eitthvað skemmtilegt verkefni í gangi. Hún sýnir og segir frá föndurævintýrum sínum á Facebooksíðunni Litla fönduramman.
Mynd/Aðsend.

Ef ég get notað eitthvað í föndrið sem hefur verið notað áður og gefið nýtt líf, þá geri ég það. Það er einfaldlega alltof miklu hent hérna.

Best að gefa nýtt líf

„Ég skoða mikið nytjamarkaði eins og Rauða krossinn og Hertex á Akureyri, en ég fer líka í endurvinnsluna hjá henni tengdamóður minni og hef tekið áldósir þaðan og ýmislegt annað til að föndra með. Ef ég get notað eitthvað í föndrið sem hefur verið notað áður og gefið nýtt líf, þá geri ég það. Það er einfaldlega alltof miklu hent hérna,“ segir Kristbjörg.

Hefurðu gaman af því að leita að hráefni? „Jahá! Ég elska að leita og finna eitthvað til að föndra með. Minn draumastaður er Kolaportið eða Góði hirðirinn. Ég elska þá staði.“

Hverju leitarðu að þegar þú ert á höttunum eftir hráefni? „Ég leita eftir öllu sem er úr viði. Sérstaklega viðarskurðbretti. Það er ótrúlega margt fallegt hægt að gera úr þeim. Um daginn var ég að klára að föndra úr stóru aflöngu viðarskurðbretti. Ég málaði það með kalkmálningu, setti á það klemmur og skrifaði „Gleðileg jól“. Þetta er þá staður fyrir jólakortin. Eitt af uppáhaldinu mínu sem ég hef gert undanfarið föndraði ég úr viðarhjarta sem ég fann í Góða hirðinum. Það var einhver texti á því, „Live, laugh, love“, sem ég pússaði bara niður. Svo málaði ég yfir með grárri kalkmálningu og skrifaði: „Mömmur eru eins og tölur, þær eru litríkar, koma í öllum stærðum og gerðum og halda öllu saman.“ Svo límdi ég slaufu og hnappa á hjartað. Ég held mikið upp á þetta.“

Þetta spilaborð fann Kristbjörg í Hertex og vissi strax að hún gæti gert einhverja gersemi úr því.
Mynd/Aðsend.
Hún pússaði myndina af og málaði fallegan texta á. Slaufan og viðarperlurnar setja punktinn yfir i-ið.

Einstök hráefni

Hver hlutur sem Kristbjörg býr til er einstakur. „Hráefnin sem ég nota koma oftar en ekki úr nytjamörkuðum, og þá er oftast bara eitt eintak í boði og ekki hægt að fjöldaframleiða. Og ef ég finn eitthvað í Tiger eða Søstrene Grene, þá stenst ég yfirleitt ekki mátið að breyta þeim hlutum líka.

Ég nota líka mikið efni sem eru ódýr eða jafnvel ókeypis, eins og hræruprikin úr málningarbúðunum. Þau nota ég oft sem bakgrunn í skilti og ýmislegt. Ég nota mikið kalkmálningu, en mér finnst áferðin sem kemur af henni skemmtileg. Hún verður alveg mött, þekur vel og þornar fljótt. Svo nota ég líka mikið Mod Podge, sem er límlakk. Það er frábært til þess að setja myndir á alls konar hluti.

Uppáhaldstíminn minn er jólin. Ég er mikil jólamanneskja og elska að föndra fyrir jólin og gefa í jólagjafir. Sjálf myndi ég vilja kveikja á jólaljósunum sem allra fyrst, en maðurinn myndi ekki samþykkja það. Ég er ekki enn búin að smita hann af jólabernskunni,“ segir Kristbjörg og hlær.

Þessi flöskuhaldari þurfti sárlega á yfirhalningu að halda og Kristbjörg var með flotta hugmynd um að breyta honum í jólalegan kólakassa með upptakara og öllu.
Mynd/Aðsend.
Hönnun kókflaskna hefur verið stórskemmtileg gegnum tíðina og rauði liturinn smellpassar inn í jólin. Þá bjó hún einnig til glasamottur sem passa á aðra hlið kassans.
Mynd/Aðsend.

Er hægt að nálgast föndrið þitt einhvers staðar? „Ég hef ekki verið að selja mikið af því sem ég bý til, en gef mikið til vina og vandamanna. Þá er ég dugleg að gefa verkin mín í jólagjafir. Í fyrra langaði mig til að vera með borð inni á Glerártorgi og selja föndrið mitt fyrir jólin, svona eins og Rauði krossinn gerir, en faraldurinn kom því miður í veg fyrir það. Núna í ár ætla ég að láta reyna á það og sé fram á að vera komin með fullt af fallegum munum til að selja í nóvember og desember. Það verður meðal annars hægt að nálgast mömmuhjartað sem ég föndraði um daginn.“

Áldósir utan af tómötum, túnfiski og ýmsu fleira er vel hægt að endurnýta í fallegt föndur.
Mynd/Aðsend.
Kristbjörg notaði þessar glasamottur í skemmtilegt fjölskylduskrafl sem sjá má fyrir neðan.
Mynd/Aðsend.
Skrafl skiltið sýnir nöfn fjölskyldumeðlima Kristbjargar og sómir sér vel á veggnum heima hjá henni.