Elín Edda Pálsdóttir er verkefnastjóri útgáfu hjá Forlaginu en hluti af hennar starfi er að finna erlendar bækur til þýðingar.

„Ég sé um að kaupa útgáfuréttindi fyrir erlendu bækurnar sem við þýðum og gefum út. Ég er í miklum samskiptum við erlend útgáfufélög og umboðsaðila og fæ gríðarlegt magn af handritum send. Ég reyni því að lesa sem allra mest og fá góða yfirsýn yfir það sem er að gerast á erlendum mörkuðum og fæ líka aðra til að lesa með mér og pæla og skoða,“ segir Elín Edda.

„Það er margt sem virkar erlendis sem virkar ekki hér. Ég fæ kannski í hendurnar bók sem er metsölubók á Ítalíu en finn að myndi kannski ekki virka jafn vel fyrir íslenska lesendur. Það er engin ein ástæða fyrir því og misjafnt eftir bókum,“ útskýrir hún.

„Það er í rauninni það skemmtilegasta við að lesa þýddar bækur að kynnast öðrum menningarheimum og samfélögum, en stundum finnur maður að það er kannski eitthvað hvernig aðalpersónur haga sér eða annað sem maður tengir ekki alveg við og finnur að myndi ekki falla í kramið hér á Íslandi. Það þarf bara svolítið að vega og meta hverja bók. En ef okkur líst mjög vel á bók þá reynum við að tryggja okkur útgáfuréttinn og útvega góðan þýðanda til að koma henni yfir á íslensku,“ segir hún.

Velur bækur fyrir bókaklúbbana

Stór hluti af starfi Elínar Eddu er að velja bækur fyrir bókaklúbba Forlagsins.

„Ég kaupi þýðingarréttindi að barnabókum og stundum vel ég líka handbækur til að þýða. En stærsti hlutinn af því sem við kaupum inn eru þýddar skáldsögur fyrir Ugluklúbbinn, sem er einn elsti bókaklúbbur á landinu. Þá fá áskrifendur sendar bækur sex sinnum á ári, tvær bækur í einu. Við erum líka með krimmaklúbb sem heitir Hrafninn, og annan með bækur eftir kvenhöfunda sem heitir Handtöskuklúbburinn en í þeim fær maður eina bók sex sinnum á ári, og allt á mun lægra verði en úti í búð. Við þurfum að hafa það í huga hvort bækurnar sem við kaupum inn passi inn í þessa klúbba,“ upplýsir Elín Edda.

Hún segir að þær þýddu skáldsögur sem virki best hér á Íslandi séu spennusögur og krimmar auk skáldsagna.

„Þá mega skáldsögurnar gjarnan fjalla um sammannleg efni eins og ást og átök, fjölskyldur, til dæmis flottar dramatískar sögur eins og sögulegar skáldsögur. Við erum með nokkuð svipaðan smekk og lesendur á hinum Norðurlöndunum svo ef einhverjar bækur hafa gengið vel þar er það nokkuð góð vísbending um að þær muni slá í gegn hér líka. Maður getur samt aldrei verið viss, þetta eru ekki mjög nákvæm vísindi.“

Elín segir að hún muni samt ekki eftir að hafa gefið út bók sem hafi gengið mun betur en von var á.

„Við kaupum auðvitað bara inn þær bækur sem við höfum alveg tröllatrú á, svo engin hefur komið rosalega á óvart. En það var gaman að sjá hvað bækurnar hans Roy Jacobsen höfðuðu vel til íslenskra lesenda. Síðasta bókin í seríunni hans um fólkið á Barrey var að koma út á þessu ári og hún sló algjörlega í gegn. Svo var að koma út snemma á þessu ári bók sem heitir Stuldur eftir Ann-Hélen Laestadius. Mér finnst gaman að sjá hvað hún hefur fengið jákvæðar umsagnir frá lesendum á samfélagsmiðlum,“ segir hún.

„Bókin fjallar um stelpu sem er Sami í Norður-Svíþjóð og lýsir með mjög áhrifamiklum hætti átökunum á milli Sama og Svía, sem er heimur sem Íslendingar þekkja ekki endilega vel en er áhugavert að fræðast um. Við gáfum líka út Stúlka, kona, annað í fyrra eftir Bernadine Evaristo. Það var rosalega flott að sjá hvað henni var vel tekið og hún höfðaði til breiðs hóps, þó hún sé ansi óhefðbundin í uppbyggingu og stíl.“

Fullkomin bók í fríið

Elín Edda segir Íslendinga gjarnan kaupa þýddar bækur til að hafa með í fríið og bækurnar séu því oft meiri afþreyingarbækur heldur en þær skáldsögur sem koma út eftir íslenska höfunda fyrir jólin.

„Þetta eru oft krimmar og ástarsögur. En Íslendingar hafa því miður ekki verið mikið í því að skrifa ástarsögur, þeir mættu alveg gera meira af því. Það er samt einstaka íslenskur höfundur sem kemur fram. Ása Marín hefur til dæmis gefið út rómantískar ferðasögur hérna hjá Forlaginu, en það er alveg markaður fyrir meira af rómantískum sögum,“ segir hún.

Aðspurð að því hvort hún mæli sérstaklega með einhverri nýútkominni þýddri skáldsögu nefnir hún Inngang að efnafræði eftir Bonnie Garmus sem kom út núna í júní.

„Það er æðisleg skáldsaga. Hún minnir svolítið á stemninguna í Mad Men og Queens Gambit ef maður á að vísa í sjónvarpsþætti. Sagan gerist á 7. áratugnum, söguhetjan er sterk kona sem er algjör efnafræðisnillingur en fær ekki þau tækifæri sem hún ætti að fá í karlaheimi. Hún gerist óvænt sjónvarpskokkur og nálgast matreiðsluna á afar vísindalegan hátt, sem er mjög fyndið. Þetta er líka falleg og sorgleg ástarsaga. Þessi bók hefur rosalega margt við sig. Hún kom mér skemmtilega á óvart en hún hefur slegið í gegn í mörgum löndum á þessu ári, til dæmis í Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi,“ segir Elín Edda og bætir við að þetta sé fullkomin bók í fríið.

Elín Edda mælir með bókinni Inngangur að efnafræði sem kom út í júní.