„Ég hef ekki heyrt um að þetta hafi verið gert áður enda fannst mér þetta alger snilld þegar þetta kom upp á borð hjá mér og ég stökk bara strax á þetta,“ segir tónlistarmaðurinn Doctor Victor, Victor Guðmundsson, um það sem hann kallar þá frábæru hugmynd glæpasagnahöfundarins Óskars Guðmundssonar að láta semja lag við nýju bókina sína, Dansarinn.

Storytel gefur bókina út í næstu viku en Victor, Daníel Ágúst og Bomarz þjófstarta í dag með útgáfu samnefnds lags sem Victor segir að sé í raun titillag bókarinnar.

„Þetta er bók um dansara og það er náttúrlega mikil tónlist í kringum það og hugmyndin var að fanga einhvern veginn bæði stemninguna og karakterinn í tónlistinni og mér fannst þetta bara alger snilld.

Ég er svolítið elektrónískur og hef verið að gefa út hraðari tónlist þannig að þetta var svolítið öðruvísi nálgun og ég er alltaf opinn fyrir nýjum hugmyndum og tækifærum þannig að ég ákvað bara að keyra á þetta.“

Victori leiddist síðan ekkert að hann og Daníel Ágúst voru fengnir til verksins. „Daníel Ágúst hefur verið að lesa inn á bækur hjá Storytel og les Dansarann á hljóðbók og þeim leist vel á hann. Hann er náttúrlega algert legend í þessum bransa og er búinn að vera í honum lengi á meðan ég er svona kannski nýr og ferskur og þeim fannst dálítið spennandi að fá eitthvað svona nýtt sánd í bland við gamalt og höfðu samband við mig.“

Höfundurinn gefur tóninn

Victor hefur unnið talsvert með raftónlistarmanninum Bomarz, Bjarka Ómarssyni, og bauð honum því einnig upp í þennan dans við verk Óskars. „Þannig að við erum í rauninni þrír og svo þegar þessi hugmynd var komin þá fékk ég Óskar rithöfund bara til mín í stúdíóið.

Victor og Óskar og Daníel og Victor náðu vel saman í hljóðveri og fundu taktinn í dansinum við Dansarann.
Mynd/Aðsend

Hann spilar ekki mikið á píanó en ég spurði bara hvort hann væri með einhverja tilfinningu, einhverjar hugmyndir. Bara eitthvað og bað hann um að skella því á píanóið. Hann settist niður og spilaði einhverja hljóma og það má segja að ég hafi bara ákveðið að taka það stef bara áfram og á annað level með þessa tvo snillinga með mér, Daníel Ágúst og Bjarka.

Óskar hefur náttúrlega aldrei gert tónlist og við höfum svo sem aldrei gert bók þannig að þetta var bara ótrúlega skemmtilegt,“ segir Victor.

Bíður spenntur

Þar sem bókin var ekki tilbúin þegar vinnan við lagið byrjaði fékk Victor Óskar til þess að rekja söguþráðinn gróflega fyrir sér og lýsa atvikum og gjörðum dansarans. „Hann sendi mér síðan valda sérlega dramatíska kafla til að koma mér inn í stemninguna. Þetta er alveg mögnuð bók og ég verð bara að segja að ég er mjög spenntur að lesa hana alla.“

Síðan komu tónlistarmennirnir saman í hljóðveri og dansinn byrjaði fyrir alvöru. „Það var náttúrlega magnað að hitta Daníel Ágúst og hann er náttúrlega bara eins og ég segi alveg sér á báti sko. Algert legend,“ segir Victor og bætir við að hann hafi lengi litið upp til Daníels Ágústs og nefnir þar Gus Gus sérstaklega.

„Það er magnað að fylgjast með hvernig hann hugsar og sjá hann „brainstorma“ yfir þessu. Hann var einmitt búinn að lesa söguna og kom með textapælingar. Þetta fer svo bara af stað og þá er þetta eins og lest sem stoppar ekki. Við erum búnir að vera alveg á fullu að vinna í þessu og erum komnir með þetta á stað núna sem við erum alveg ótrúlega sáttir með. Þetta er í rauninni bara magnað núna,“ segir Victor, sem er læknir á daginn og tónlistarmaður á kvöldin, um titillag skáldsögunnar sem kemur út í dag.

Dansarinn er fjórða bók Óskars Guðmundssonar sem fór af stað með látum með Hilmu árið 2015.
Fréttablaðið/Samsett

Dansarinn

Bókaútgáfan Storytel Original gefur Dansarann út þann 11. nóvember en hún er fjórða skáldsaga Óskars Guðmundssonar sem kom sterkur inn 2015 með spennusögunni Hilmu sem hlaut Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, sem besta glæpasagan það ár. Hann fylgdi Hilmu eftir með sjálfstæðu framhaldi, Blóðengli, 2018 og síðan komu Boðorðin út 2019.

Dansarinn gerist árið 1982 og fjallar um tvítugan dreng sem elst upp hjá einstæðri móður sem hafði verið framúrskarandi góður ballettdansari, en brostnir draumar, höfnun og áföll keyra veröld hennar um koll.

Hún elur son sinn upp af miklu harðræði í hálfgerðri einangrun og er haldin þeirri þráhyggju að sonur hennar verði besti ballettdansari sem um getur. Heimur hans hverfist um móðurina og dansinn með skelfilegum afleiðingum.