Ófærð er sjónvarpsrýnum á samfélagsmiðlum hugleikin og þar sýnist sitt hverjum. Þáttunum er hrósað og bölvað í bland á ýmsum forsendum og þeir virðast mörgum endalaus uppspretta fimmaurabrandara sem á stundum hitta í mark.

Sjötti þátturinn af tíu var sýndur í gærkvöld og að honum loknum eru það helst óflokkað sorp og bjarndýrsþráhyggja Hendrikku þegar Andri er annars vegar sem standa upp úr.

Þannig gripu tístarar vandræðaunglinginn Aron glóðvolgan þegar hann lét óflokkað partírusl flakka í ruslatunnu, sem virðist til að bæta gráu ofan á svart, vera pappírstunna.

Reynir Jónsson er einn þeirra sem vekur athygli á þessu á samfélagsmiðlinum og spáir því að nú muni áhugafólk um endurvinnslu nötra. „Hendir gleflöskum og dósum í plasttunnu með pappatunnuloki.“

Þessi umhverfissóðaskapur persónunnar fór heldur ekki fram hjá Steingrími Sævarri Ólafssyni: „Mér sýnist að sorp sé ekki flokkað á Siglufirði #ófærð #ófærð2 #flöskurogruslbeintítunnuna #hallóendurvinnsla.“

Þá leiðist þeim sem leggja orð í belg um Ófærð á Twitter greinilega ekki rík tilhneiging lögreglustjórans Hinriku, persónu Ilmar Kristjánsdóttur, til þess að sjá Andra, sem Ólafur Darri leikur, sem bjarndýr.

Í fimmta þætti talaði hún um hann sem bjarndýr á vegg frekar en flugu og í þætti gærkvöldsins greindi hún tilvistarkreppu hjá uppáhalds bangsanum sínum.

„Fluga á vegg...eða eins og bangsi á vegg. Munu samtök mjúka fólksins kvarta yfir #fatshaming í #ófærð #ófærð2 eins og gert var við korter í downs!,“ spyr H. Hafsteinz með vísan til deilna sem spruttu nýlega upp, ekki síst á samfélagsmiðlum, um orðbragð eins skúrksins í þáttunum.

Sjá einnig: Mæðrum barna með Downs sárnar Ófærð

„Fyrst var það björn á vegg ... nú er það björn í tilvistarkreppu ... þetta er æði :-) #ófærð,“ tístir Doddi Jonsson og Sandra Harðardóttir varpar fram lykilspurningu í þessu sambandi:

„‏Ef Andri er björn í tilvistarkreppu er dóttir hans þá baby bjorn í tilvistarkreppu?“