„Þetta er svolítið stórt stökk sko en ég er bara mjög spenntur,“ segir stjórnmálafræðingurinn Óskar Örn Bragason sem verður sérstakur gestur á sýningunni VHS krefst virðingar í kvöld.

„Það er kannski dálítið bratt að koma fyrst fram fyrir framan fólk í troðfullu Tjarnarbíói en það gerir söguna bara betri. Ég er vissulega stressaður en hlakka líka mjög mikið til enda mikill heiður að fá að vera með.“
Óskar verður þarna með sitt fyrsta uppistand fyrir áhorfendur en áður hefur hann eingöngu komið fram fyrir myndavél og VHS-flokkinn þegar hann dæmdi keppnina um titilinn fyndnasti háskólaneminn 2021.

„Öll sem kepptu voru ógeðslega fyndin en við vorum öll sammála um að Óskar stæði upp úr og við vildum geðveikt mikið fá hann til þess að koma fram með okkur,“ segir VHS-liðinn Stefán Ingvar Vigfússon og bætir við að þau hafi boðið honum um leið og úrslit lágu fyrir. „Og við vorum svo heppin að hann þáði boðið.“

Lærði ekki hjá Hannesi

Óskar Örn er 23 ára gamall Vesturbæingur og lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands í vor og segir aðspurður að þótt fræðigreinin beri það kannski ekki beint með sér þá leyni hún á sér í gríninu.
„Já, já. Það eru nú margir húmoristar þarna.“

Já, Hannes Hólmsteinn og svona?

„Hann reyndar kenndi mér ekki neitt,“ svarar Óskar sem horfir í allt aðra átt til grínfyrirmynda. „Ég hef rosalega gaman af þessu öllu og fylgist svolítið með því sem er að gerast hérna heima og mér hefur náttúrlega alltaf fundist Jón Gnarr dálítið mikið góður.

Saman mynda þau Hákon Örn Helgason, Vilhelm Neto, Stefán Ingvar Vigfússon og Vigdís Hafliðadóttir VHS-hópinn sem krefst virðingar og leyfir fyndnasta háskólanemanum að njóta hennar aðeins með þeim.
Fréttablaðið/Ernir

Hann er svona idol hvað þetta varðar,“ segir fyndni stjórnmálafræðingurinn sem er frekar nýbyrjaður að sjá fyrir sér að hann geti starfað við grínið þótt hann hafi lengi litið upp til uppistandsgrínara og fundist listformið aðdáunarvert.

Flippuð skyndiákvörðun

Óskar Örn tekur við titlinum fyndnasti háskólaneminn af Vigdísi Hafliðadóttur sem einmitt bauðst einnig að koma fram með VHS eftir sigur í keppninni í fyrra og var í kjölfarið boðið að ganga til liðs við hópinn. Þannig að spyrja má hvort fjölgun sé fyrirsjáanleg í VHS jafnt og þétt eftir því sem fyndnustu háskólanemarnir verða fleiri?

„Ég segi það nú ekki,“ segir Stefán Ingvar og hlær. „En okkur finnst allavegana mjög gaman að taka á móti þeim sem sigra í þessari keppni í fyrsta giggið þeirra eftir það. Bjóða þau svona velkomin inn í senuna.“

Stefán Ingvar, lengst til vinstri, ásamt Vilhelm Neto og Hákoni Erni, segir hópinn í sjokki yfir viðtökunum sem sýningin VHS krefst virðingar hefur fengið.

„Þetta var nú kannski ekkert mjög úthugsuð ákvörðun. Þetta var kannski dálítil skyndiákvörðun en ég undirbjó mig alveg,“ segir Óskar sem skráði sig til leiks í blöndu af geðshræringu, flippi og forvitni.

Alveg í sjokki

Upphaflega stóð til að Óskar kæmi fram nokkrum vikum eftir keppnina, um páskana, með VHS-flokknum en kórónaveirufaraldurinn setti strik í reikninginn. „Það stóð alltaf til að hann yrði með okkur og við erum þvílíkt þakklát að aðstæður leyfi það loksins,“ segir Stefán Ingvar, vígreifur og hress, enda uppselt á sýningu kvöldsins og krafa VHS um virðingu að gera stormandi lukku við Tjörnina.

„Þetta hefur verið alveg vonum framar. Við erum í sjokki og vorum einmitt að rifja það upp þegar við gerðum fyrstu sýninguna okkar fyrir tveimur árum. Þá sögðu þau í Tjarnarbíó okkur að við ættum ekkert endilega að búast við að það yrði strax uppselt. En núna erum við með uppselt nánast fram í nóvember þannig að við erum alveg bara í sjokki. Það er okkar opinbera afstaða,“ segir Stefán.

Óskar Örn heldur hins vegar ró sinni og er með báða fætur á jörðinni þegar hann er spurður hvort hann stefni á að leggja uppistandið fyrir sig. „Ég nefnilega bara veit það ekki. Við skulum bara sjá hvernig þetta fer í kvöld. Ef þetta floppar alveg þá er þetta kannski bara búið,“ segir fyndnasti háskólaneminn og hlær.