Arndís er alltaf þakklát fyrir jólin. „Þau eru svo kærkomin í myrkrinu og kuldanum – það væri hreinlega ómögulegt að komast í gegnum veturinn án þeirra! Þau eru líka svo nátengd tilfinningunum – á jólunum magnast allt upp. Gleðin yfir samvistum við þá sem maður er með, söknuður eftir þeim sem eru ekki á staðnum, eftirvænting og upplifanir. Við erum upptekin af því hvað við borðum, af hverju við finnum lykt og tónlistinni í eyrunum. Það er gott að fara stundum inn í árstíma þar sem allir eru svolítið mjúkir og viðkvæmir. Svo er ég fædd 21. desember, svo ég – eins og annað fólk sem á afmæli í desember – upplifi það pínulítið að þetta sé alveg sérstaklega minn tími,“ segir hún.

Arndísi finnst mikilvægt að fá dálítinn bunka af bókum á jólunum. „Ég fæ iðulega líka bækur í afmælisgjöf og er svo lánsöm að eiga enn í farsælu sambandi við Gluggagægi sem færir mér alltaf nýja bók í skóinn á afmælinu! Svo ég er yfirleitt vel haldin yfir jóladagana. Ég er samt farin að kaupa mér talsvert af nýjum íslenskum bókum fyrir jól. Mér finnst gaman að byrja að lesa bækurnar að hausti, svo maður sé með í umræðunni þegar bækurnar eru nýútkomnar. En suma titla sigta ég út í Bókatíðindum og spara mér – það eru bækur sem ég vil setja á óskalistann minn og lesa undir sæng í jólanáttfötunum.“

Minnast aldrei á skandalinn

Eftirminnilegustu bækur sem Arndís hefur fengið í jólagjöf er heildarsafn leikverka Ibsens en á unglingsárum fékk hún Ibsen á heilann.

„Safnið var algjörlega uppselt en foreldrar mínir höfðu samband við þýðandann, skáldið Einar Braga, og fengu hjá honum eintak. Það var góð gjöf – bæði áttu þeir Ibsen og Einar Bragi stórleik í textanum en líka var hlýjan sem fylgdi þessari fyrirhöfn foreldranna dýrmæt,“ segir Arndís sem hefur líka fengið og gefið bækur í jólagjöf sem hittu ekki alveg í mark.

„Einu sinni varð ég fyrir því óláni að gefa bestu vinkonu minni, gríðarlega vel lesinni og greindri konu, Da Vinci lykilinn eftir Dan Brown í jólagjöf. Þá var bókin nýútkomin á ensku, og ég keypti hana innbundna handa henni af því ég hélt að þetta væri ægilega lært rit, safaríkt og fullt af táknfræði. Ég hafði heyrt óminn af fjaðrafokinu sem varð yfir bókinni í útlöndum og hélt að ég væri að færa henni næsta Umberto Eco. Dan Brown reyndist ekki vera næsti Umberto Eco og við vinkona mín höfum aldrei minnst á þennan smáskandal aftur,“ segir Arndís og rifjar upp annað klúður í bókagjöfum frá því hún var 18 ára.

„Þá hafði ég mikið vandað mig að velja eitthvað fallegt handa menntaskólakærastanum og varð heldur skúffuð þegar ég opnaði gjöfina frá honum á aðfangadag og það reyndist vera ný íslensk barnabók – tröllasagan Hlunkur eftir Brian Pilkington. HLUNKUR! Unglingurinn með alla útlits-komplexana átti svolítið erfitt með að finna djúpu gleðina yfir þessari gjöf. En þetta kom ekki alvarlega að sök á endanum og nú lesum við bókina um Hlunk fyrir börnin okkar tvö,“ segir Arndís og hlær.

Múmínálfar á óskalistanum

Arndís gaf sjálf út þrjár bækur á þessu ári sem eflaust eiga eftir að rata í jólapakkana hjá einhverjum.

„Ég var að gefa út bókina Nærbuxnavélmennið, sem er þriðja bókin sem gerist í nærbuxnaverksmiðjunni í Brókarenda. Þetta eru ærslasögur sem fjalla líka um vináttu, hugrekki og heilindi og mér þykir mjög vænt um. Það hefur verið gaman að fylgja þessum persónum, Gutta og Ólínu, síðustu ár. Það er eitthvað við nærbuxur sem fær alla til þess að flissa – þótt þær séu það hversdagslegasta í veröldinni. Og mér finnst gaman að fjalla um samskipti í bland við allt nærbuxnagrínið! Fyrr í ár gaf ég út ljóðabókina Innræti og í maí gáfum við Hulda Sigrún Bjarnadóttir út barnabókina Blokkina á heimsenda, svo þetta eru óvenjulega drjúg bókajól hjá mér í ár. Einmitt þetta undarlega ár þegar maður hittir enga lesendur í flóðinu.“

Á óskalistanum hjá Arndísi í ár er stórbókin um Múmínálfana sem hún vonar að Gluggagægir færi henni á afmælisdaginn. Hún segist líka spennt fyrir því að lesa Eldana, ástina og aðrar hamfarir eftir Sigríði Hagalín. Svo bendir hún á að margar spennandi ljóðabækur séu nýútkomnar. „Sonur grafarans eftir Brynjólf Þorsteinsson er til dæmis forvitnileg.“