Sölvi Hrafn Pétursson, Embla Rún Pétursdóttir og Viðar Darri Egilsson, nemendur í 7. og 8. bekk í Vatnsendaskóla segja mikilvægt að foreldrar leiðbeini börnum varðandi snjalltæki en setji ekki of strangar reglur vegna netnotkunar. 

Upplýsingatæknin léttir skólatöskuna

Hvað er skemmtilegast að gera í snjalltækjum? Fyrir utan að spila Minecraft og horfa á YouTube-myndbönd af Minecraft finnst mér gaman að horfa á King of Random og stundum Friends.

Hvað þarf að varast á netinu? Hvað maður skrifar, hvað maður segir og horfir á. Ef maður tekur t.d. mynd og sendir eitthvert þá er hún þar alltaf að eilífu.

Hverjir geta best kennt krökkum á snjalltæki og netið? Fullorðnir, því að þeir vita meira um hætturnar.

Hvað þurfa fullorðnir að vita um netið? Hvað má og hvað má ekki.

Er eitthvað sem fullorðnir skilja ekki varðandi hvernig krakkar nota netið/snjalltæki? Kannski þegar maður er að læra að gera eitthvað í einhverjum leik og er að horfa á myndbönd þá halda foreldrar að maður sé bara að glápa á einhvern spila.

Þurfa að vera einhverjar reglur/viðmið? Já.

Er gott að gera samning um hvernig tækin eru notuð og hafa reglur? Nei, mér finnst þess ekki þurfa.

Viljið þið spjalla við fullorðna um tölvuleiki, netið eða snjalltæki? Já, ég væri til í það, mér finnst gaman að tala um tölvuleiki.

Er tæknin af hinu góða? Já, tæknin hjálpar með svo margt eins og t.d. getur maður sett allt inn á Google Translate og skilur þá næstum hvað sem er.

Vilt þú nota snjalltæki í skólum? Já, það er miklu þægilegra.

Hvaða áherslur ættu skólarnir að hafa í upplýsingatækni? Hvað ættu þeir að kenna? Allt, þá er maður ekki með eins þunga skólatösku.

Er hægt að nota snjalltæki í öllu námi? Já, maður þarf bara að finna leiðina.

Finnst þér að það ætti að vera meira á íslensku í tækjunum og skiptir máli að nota íslensku þegar unnið er með nýja tækni? Já og nei, finnst bæði betra.

Einhver skilaboð til fullorðinna, foreldra og kennara? Lesið allt sem ég er búinn að svara hér og gerið það.

Að eilífu á netinu

Hvað er skemmtilegast að gera í snjalltækjum og netinu í dag ? Horfa á Friends og spila Home Design leik.

Hvernig er best að kenna krökkum að umgangast netið og snjalltæki? Með því að fá leiðbeiningar frá foreldrum og kennurum, með því að tala um hvað er hættulegt og t.d. hvað er einelti.

Hverjir geta best kennt krökkum hvernig gott er að umgangast netið? Fullorðnir, af því að við hlustum öðruvísi þegar fullorðnir eru að tala, maður tekur það alvarlega. Fullorðnir hafa reynslu til að miðla og annað sjónarhorn.

Hvað þurfa fullorðnir að vita um netið? Að allt sem maður setur á netið er þar að eilífu og að það eru t.d. barnaníðingar sem reyna að nýta sér sakleysi barna og unglinga.

Er eitthvað sem fullorðnir skilja ekki varðandi hvernig krakkar nota netið/snjalltæki? Já, stundum. Foreldrar halda oft að maður sé BARA að horfa en oft er ég að læra eða lesa eitthvað áhugavert sem er fræðandi.

Hvernig geta fullorðnir hjálpað? Með því að leiðbeina og setja reglur.

Hvaða reglur eiga fullorðnir að setja? Hversu mikið maður notar netið, en helst ekki að setja reglur heldur frekar leiðbeina og segja og sýna krökkum dæmi um það hvað það er sem getur gerst, svo maður viti og sjái sjálfur í hverju hættan felst.

Er gott að gera samning um hvernig maður notar tækin eða hafa reglur? Nei, það er svo erfitt að hafa eitt sem gengur yfir alla, en það er gott að hafa reglur til viðmiðunar.

Er tæknin af hinu góða? Bæði já og nei. Hún getur hjálpað til í vísindum og hjálparstarfi en á móti er mannfólkið hætt að tala eins mikið saman og áður og margir orðnir helteknir af tækninni.

Hvaða áherslur ættu skólarnir að hafa í upplýsingatækni? Mér finnst að allt námsefni ætti að vera rafrænt, það er umhverfisvænna.

Einhver skilaboð til fullorðinna? Foreldrar, hlustið á börnin ykkar en ekki reyna að stjórna þeim, leiðbeinið því annars lærir maður ekkert á því sem verið er að segja. Sama á við um kennara og aðra.

Skemmtilegt að forrita

Hvað er skemmtilegast að gera í snjalltækjum? Horfa á YouTube-myndbönd. Mér finnst skemmtilegast að horfa á fólk spila leiki eins og Minecraft eða Fortnite.

Hvað þarf að varast? Ekki segja neinum lykilorðið sitt og ekki tala við ókunnuga.

Hvernig er best að kenna krökkum að umgangast netið og snjalltæki? Með því að tala saman og segja þeim frá því sem er hættulegt og sýna þeim hvað er skemmtilegt.

Þurfa að vera einhverjar reglur/viðmið? Já, því að það getur verið óhollt fyrir krakka að vera of lengi í tölvunni, þeir geta orðið leiðinlegir og pirraðir. Svo getur verið hættulegt að tala við ókunnuga og það er alls konar ógeð á netinu, t.d. getur maður lært fullt af ljótum orðum og séð ógeðslegar myndir.

Hvernig geta fullorðnir hjálpað krökkum varðandi umgengni við tölvur? T.d. að þau megi ekki vera of lengi í tölvunni í einu, banni þeim að fara í tölvuna án leyfis og svo er gott að hafa tölvulausa daga. En ef það eru tölvulausir dagar þurfa foreldrar að gera eitthvað með þeim svo þeim leiðist ekki.

Spjallar þú við fullorðna um tölvuleiki? Ég vil helst tala við vini mína um tölvuleiki og stundum segi ég þeim frá einhverju fyndnu sem ég hef séð á YouTube. Ég tala ekki mikið við fullorðna um tölvuleiki og netið nema þegar mamma og pabbi tala um reglur við mig.

Er tæknin af hinu góða? Já, því það er hægt að gera svo margt skemmtilegt, t.d. tala við systur mína sem býr í útlöndum og spila tölvuleiki. En það getur samt verið leiðinlegt þegar allir hanga í símanum eða spjaldtölvunni og eru þá ekki að leika eða tala saman.

Viltu nota snjalltæki í skólum? Já, það er mjög gott að nota spjaldtölvur til að læra, við fáum spjaldtölvu í skólanum og notum hana mjög mikið. En ég veit að ég skrifa frekar illa af því að ég er vanur að nota tölvu.

Hvaða áherslur ættu skólarnir að hafa varðandi tæknina? Mér finnst gaman að gera allt í tölvu en skemmtilegast er að forrita.

Einhver skilaboð til fullorðinna? Ég myndi vilja að fullorðnir væru ekki svona mikið í símanum og krakkarnir ekki svona mikið í tækjum því stundum nenna þeir ekki neinu öðru.

Greinin birtist fyrst í sérblaði Heimili og skóla sem fylgdi Fréttablaðinu 13. september 2018.