Í dag er málþing á dagskránni sem hefur yfirskriftina Undur í norðri,“ segir Ágústa en skráningu á málþingið lauk fyrir nokkru. „Við höfum yfirleitt verið með þema og þemað í ár er þetta, undur í norðri með tengingu í norrænar barnabókmenntir og hið undursamlega sem þær færa okkur. Á morgun og hinn, laugardag og sunnudag, verður hins vegar mikið um að vera og þá eru allir velkomnir hingað til okkar í Mýrina.“

Hún segir leika hefjast strax klukkan tíu á laugardagsmorgun og standa yfir allan daginn. „Börnum er meðal annars boðið að taka þátt í ýmsum vinnustofum þar sem unnið er út frá myndskreytingum en myndheimurinn verður æ fyrirferðarmeiri í söguheimi barna,“ segir Ágústa. „Þau fá til dæmis að skapa ævintýrafugla með myndskreytingum Marit Törnquist sem meðal annars hefur myndskreytt margar af bókum Astrid Lindgren, á sýningunni Barnabókaflóðið fá börnin að taka þátt í að skreyta einn vegginn með myndlist og á sýningunni á dýrum úr bókinni „Dýr sem enginn hefur séð annar en við“ verður farið í fimleika í anda dýranna í bókinni og ljóðanudd í kjölfarið þar sem börn og foreldrar nudda hvert annað við hljóð og takt dýraljóðanna. Þá munu spéfuglarnir Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring draga þátttakendur út um víðan völl í Vatnsmýrinni í leit að hinum eina sanna furðufugli og félögum hans.“

Fullorðið áhugafólk um barnabækur getur sótt málstofur þar sem meðal annars verður farið yfir stöðu barnabóka á Íslandi, rætt við Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Áslaugu Jónsdóttur rithöfunda sem báðar eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og farið yfir hvers vegna lesendur fantasía munu bjarga heiminum með Siri Pettersen, sænskum fantasíuhöfundi.

„Á sunnudaginn klukkan hálf tvö verður svo dagskráin Bók í hönd – og þér halda engin bönd sem er haldin til heiðurs heiðursgestum hátíðarinnar, mynd- og rithöfundunum Sigrúnu og Þórarni Eldjárn. Margrét Tryggvadóttir bókmenntafræðingur spjallar við Sigrúnu og Þórarin og fær með sér góða gesti, þau Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Áslaugu Jónsdóttur, til að ræða höfundarverk þeirra og feril. Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson flytja þar einnig lög sem samin hafa verið við ljóð Þórarins,“ segir Ágústa og bætir við að á sunnudaginn verði einnig hægt að búa til eigið stjörnumerki með Sævari Helga Bragasyni.

Þetta er fjórða Mýrarhátíðin sem Ágústa kemur nálægt. „Stemmingin í húsinu er ótrúlega skemmtileg og ef allt fer að óskum þá verða krakkar í hverju rými að skapa og skemmta sér yfir bókum.“ Aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Það er Mýrin félag um barnabókmenntir sem stendur að hátíðinni.

Nánari dagskrá má sjá á myrin.is.