Stórsveit Reykjavíkur mun leiða börn og fjölskyldur inn í sumarið með sveifluballi í Hörpu laugardaginn 21. maí, í samstarfi við Sveiflustöðina. Þetta er í fyrsta skiptið dansiball fyrir krakka og fjölskyldur þeirra er skipulagt í Hörpu og segir Ingibjörg Fríða Helgadóttir, verkefnastjóri barnamenningar í Hörpu, mikla eftirvæntingu ríkja í húsinu. „Fjölskyldudagskrá okkar hefur undanfarna mánuði miðað við að kynna þá sem komu að gerð Hljóðhimna, en það er nýtt rými fyrir börn og fjölskyldur, til að kanna og upplifa tónlist í Hörpu. Þar eiga allir íbúar hússins sinn stað, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Stórsveit Reykjavíkur, Íslenska óperan og Maxímús Músíkús. Stórsveit Reykjavíkur á í Hljóðhimnum Tónstýri og Takthjól, en með því að snúa Tónstýrinu heyra krakkarnir sama lagið spilað í mismunandi tónlistarstílum. Hugmyndin með ballinu er að tengja saman hreyfingu og dans, sjá hvernig líkaminn vill hreyfa sig við ólíka tónlistarstíla og prófa að stýra Tónstýrinu um heimsins höf.“

Ingibjörg Fríða Helgadóttir er verkefnastjóri barnamenningar í Hörpu. AÐSEND/BALDUR KRISTJÁNS

Lauflétt danskennsla

Sveifluballið er samstarf Hörpu, Stórsveitarinnar og Sveiflustöðvarinnar en það er hópur góðs fólks sem elskar að dansa Lindy Hop dans segir Ingibjörg. „Hann var mjög vinsæll á swing tímabilinu, á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Bragi Árnason, frá Sveiflustöðinni, leiðir því gesti í gegnum einföld lindy hop spor áður en ballið byrjar. Eiríkur Rafn Stefánsson stjórnar Stórsveitinni, setur kannski á sig skipstjórahattinn og stýrir Tónstýrinu um sveiflunnar höf. Við byrjum því á laufléttri danskennslu svo allir séu tilbúnir í sveifluna þegar ballið byrjar.“

Í Hljóðhimnum má finna Tónstýri og Takthjól, en með því að snúa Tónstýrinu heyra krakkarnir sama lagið spilað í mismunandi tónlistarstílum. AÐSEND/SIGGA ELLA

Spennandi dagskrá í ár

Margt skemmtilegt er fram undan hjá Stórsveit Reykjavíkur í ár. „Í sumar ber helst að nefna Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst. Í september heldur sveitin svo upp á þrítugsafmælið, eftir covid frestun, með því að spila undir stjórn Mariu Schneider, en hún er einn þekktasti stórsveitarstjórnandi og tónskáld í heimi í dag. Hljóðhimnar eru opnir alla daga í Hörpu, aðgangur er ókeypis og við hvetjum fjölskyldur til að koma og njóta samverustundar þar.“

Dansleikurinn á laugardag hefst kl. 16 í Flóa, á fyrstu hæð Hörpu og tekur um klukkustund. Aðgangur er ókeypis og dansgólfið er opið.

Nánar á harpa.is og á Facebook síðu Hörpu.