Fyrsti vetrardagur er kominn og farinn, hitinn er að lækka, lægðirnar eru byrjaðar að koma og dagarnir eru farnir að styttast. Þessu fylgir iðulega kvef hjá stórum hluta þjóðarinnar. Eitt vinsælasta ráðið við kvefi er kjúklingasúpa, en hversu mikið gagn gerir hún í raun og veru?

Það hafa ekki verið gerðar neinar beinar rannsóknir á virkni kjúklingasúpu gegn kvefi, en það eru rannsóknir sem gefa til kynna að hún geti hjálpað.

Ein rannsókn sem birtist í læknatímaritinu Chest gaf til kynna að súpan gæti haft bólgueyðandi áhrif, sem gæti minnkað einkenni sýkinga í efri öndunarvegi. Rannsakendur könnuðu sérstaklega hreyfingu daufkyrninga, sem eru ein gerð hvítra blóðfruma. Þeir komust að því að súpan gæti minnkað hreyfingu á þeim, sem gæti mögulega haft bólgueyðandi áhrif.

Höfundur rannsóknarinnar, dr. Stephen Rennard, segir að það séu efni í kjúklingasúpu sem gætu haft læknandi áhrif, en að áhrif þeirra hafi ekki verið rannsökuð. Rannsóknin fór líka fram á tilraunastofu og það er ekki einu sinni víst að líkaminn geti tekið við þessum efnum. Rennard segir að kjúklingasúpa gæti haft áhrif, en það þurfi mun meiri rannsóknir til að skilja þau.

Slær á einkenni

Í annarri rannsókn sem birtist í sama tímariti voru leiddar líkur að því að lyktin, kryddin og hitinn frá súpunni gætu hjálpað við að hreinsa nefholið og slá á einkenni sýkinga í öndunarfærum. Þar var litlum klumpum sem áttu að líkjast bakteríum eða vírusum komið fyrir í nefi 15 heilbrigðra einstaklinga og svo var mælt hvaða áhrif heitt vatn, kalt vatn og kjúklingasúpa hefðu á virkni eindanna í klumpunum.

Dr. Kiumars Saketkhoo, höfundur rannsóknarinnar, segir að heit kjúklingasúpa hafi reynst áhrifaríkari en heitt vatn við að hjálpa slímhúðinni í öndunarfærum líkamans að losa sig við agnir og sýkingar, sem er mikilvægur þáttur í að losa líkamann við öndunarfærasýkingar. Allt sem hjálpar öndunarveginum að hreinsa sig gæti unnið gegn sýkingum, segir Saketkhoo.

Neysla á heitum vökva getur líka hitað kokið og þannig minnkað einkenni, sem gæti útskýrt af hverju kalt vatn hafði minnst áhrif. En niðurstaðan gefur til kynna að kjúklingasúpa hafi kosti fram yfir heitt vatn, hverjir sem þeir kunna að vera.

Næring og ást

Sérfræðingar eru samt sammála um að kjúklingasúpa geti komið veiku fólki að gagni, sérstaklega ef það á erfitt með að borða.

Næringarfræðingurinn Kristen Smith segir að kjúklingasúpa sé næringarrík og geti hjálpað fólki við að fá nægan vökva. Flestar kjúklingasúpur innihalda líka mikið af vítamínum og steinefnum, til dæmis A-vítamíni, sem styrkir ónæmiskerfið, og sinki, sem getur unnið gegn kvefi. Kjúklingurinn sjálfur getur líka komið að gagni við að gera við vefi og hann inniheldur amínósýru sem hefur verið rannsökuð því talið er að í stórum skömmtum geti hún unnið gegn kvefi.

Umhverfið skiptir líka máli. Ef einhver er að sjá um veikan einstakling hefur sú umhyggja áhrif, þannig að jákvæðu áhrifin eru ekki endilega bara súpunni sjálfri að þakka.

Kjúklingasúpa er ekki að fara að lækna kvef en hún hjálpar fólki að líða betur. Besta ráðið við kvefi er góð hvíld, góð næring og neysla á heitum vökva, þannig að kjúklingasúpa hentar mjög vel.