Bíóbransinn hefur heldur betur fengið að kenna á COVID-19 þar sem frumsýningum fokdýrra stórmynda hefur ítrekað verið slegið á frest enda hafa kvikmyndahús víða um lönd staðið tóm eða eru að skella í lás víða í Evrópu um þessar mundir vegna hertra sóttvarnaraðgerða.

„Það er mikil hefð fyrir því að fara í bíó um jólin og búið að vera mikið í fréttum að bíó séu lokuð erlendis þannig að margir halda að bíóin hérna séu líka lokuð en svo er ekki,“ segir Alfreð Ásberg hjá Sambíóunum.

Jólabíóhefðinni virðist því vera borgið og sú vaska ofurhetja Wonder Woman sér til þess að við fáum þó eina þvottekta jólamynd, samkvæmt íslenska mælikvarðanum, en bíóin hafa í gegnum áratugina reynt að bjóða upp á rándýrar og stjörnum prýddar stórmyndir í kringum jólin.

Jólakraftaverkið

Wonder Woman 1984 er framhald Wonder Woman frá 2017 og gerist eins og titillinn bendir til 1984 en á því annars ágæta ári voru jólamyndir íslensku kvikmyndahúsanna meðal annars Ghostbusters, Trading Places, íslenska myndin Gullsandur, Indiana Jones and the Temple of Doom, Sagan endalausa, Streets of Fire og Electric Dreams.

Wonder Woman sló í gegn 2017 og er án efa lang besta ofurhetjumyndin frá DC Comics sem hefur hvergi nærri tekist að flytja hetjur sínar í bíó með sama glæsibrag og keppinautarnir hjá Marvel.

Það eru fleiri furðuskepnur en jólasveinarnir og jólakötturinn á sveimi um Reykjavík á aðventunni, þar sem Anne Hathaway fer fyrir nornasveimi í bíó.

Leikkonan Gal Gadot gerði hins vegar stormandi lukku í hlutverki gyðjunnar Díönu Prince, sem steig niður til mannheima í seinni heimsstyrjöldinni til þess að taka hressilega á kónum Hitlers.

Velgengni myndarinnar er annars fyrst og fremst eignuð leikstjóranum, Patty Jenkins, en Wonder Woman er fyrsta myndin sem kona leikstýrir til þess að rjúfa 100 milljón dollara múrinn yfir frumsýningarhelgi í Bandaríkjunum.

Betra seint en …

Nær 70 ár líða á milli mynda og Díana býr og starfar í New York árið 1984 þegar þær Gadot og Jenkins taka upp þráðinn. Upphaflega stóð til að frumsýna myndina í byrjun október en síðan kom til greina að bíða með hana fram yfir áramót, en sem betur fer varð úr að sleppa Wonder Woman lausri í bíó fyrir jól þannig að bíójólunum er borgið. Allavegana á Íslandi.

Jólateiknimynd ársins er hin tveggja ára gamla Elli og litla hreindýrið og fjallar um smáhest sem hefur þrjá daga til þess að láta draum sinn um að fá að draga sleða jólasveinsins rætast.myndir/skjáskot

Wonder Woman er líka greinilega ætlað að taka Ísland með trompi þar sem hún er beinlínis úti um allt, en auk þess að vera sýnd í Sambíóunum er hún í Smárabíói, Laugarásbíói og Háskólabíói.

„Forsalan á Wonder Woman hefur gengið mjög vel og engin mynd hefur verið sýnd í eins mörgum sölum áður þannig að fólk ætti að geta komið í bíó um jólin á öruggan hátt,“ segir Alfreð og bætir við að heilsa og öryggi bíógesta og starfsfólks sé í algerum forgangi. Því sé grímuskylda fyrir sextán ára og eldri í Sambíóunum og tryggt verði að alltaf verði í það minnsta tveir metrar á milli hópa í sölunum. Þá verða sýningar hlélausar og aldrei fleiri en 50 manns eldri en fimmtán ára í einum sal og aldrei fleiri en 100 manns yngri en sextán ára.

Skoppa og Skrítla koma með jólagleðina í bíó beint af sviðinu í Hörpu.

„Bíóaðsókn milli ára hefur dregist saman um 59% en óstaðfestar tölur frá öðrum löndum eru hærri,“ segir Alfreð og telur framtíðina bjarta og vonast til þess að bíóin verði fljót að komast yfir COVID áfallið.

Stelpur og nornir

Skoppa og Skrítla byrjuðu einnig í bíó í gær í Skoppa og Skrítla - brot af því besta þar sem þær flytja öll vinsælustu lögin sín .

Danska myndin Druk, sem er sýnd í Bíó Paradís, er með því besta sem er í boði í aðdraganda jóla þótt Mads Mikkelsen sé meira í vínandanum en jólaandanum.

Þá voru fyrir á fleti í bíó nornagengið í The Witches, sem byggir á samnefndri skáldsögu Roalds Dahl. Robert Zemeckis, sem gerði garðinn frægan með til dæmis Back to the Future, Who Framed Roger Rabbit og Forrest Gump, leikstýrir myndinni en Anne Hathaway er fremst í flokki nornanna.

Nornir Dahls voru síðast í bíó fyrir 30 árum í The Witches frá 1990 þar sem breski leikstjórinn Nicolas Roeg hélt um taumana og Anjelica Huston fór mikinn í hlutverki aðalnornarinnar.