Sagnamaðurinn, bóndinn og rokkarinn Stephen Jenkinson er kominn til landsins að undirlagi Elínar Öglu Briem, þjóðmenningarbónda í Árneshreppi. Hann ætlar að halda þrenna tónleika á Íslandi undir yfirskriftinni Kvöldstund full af dulúð og harmi.

Hann byrjar í Iðnó í Reykjavík í kvöld og síðan verður stefnan tekin á Árneshrepp og Aratungu en Elín Agla telur boðskap og lífssýn þessa kanadíska lærimeistara hennar ekki síst eiga erindi á Strandir þar sem hart er deilt um fyrirhugaða Hvalárvirkjun.

Mikilvægi hlátursins

„Ég hef komið til hans tvisvar á ári í sex ár og alltaf sagt honum fréttir að því sem er að gerast í Árneshreppi,“ segir hafnarstjórinn í Norðurfirði, Elín Agla. „Þannig að hann fylgist ótrúlega vel með pólitík og gangi mála í Árneshreppi á Ströndum og áttar sig líka ágætlega á heildarmyndinni hérna á Íslandi enda er hún mjög lík stöðunni í Kanada, Bandaríkjunum og Englandi enda erum við náttúrlega bara í sömu menningu þar sem umhverfismálin, dauði ungs fólks út af þessum sterku læknalyfjum og ágengnin í auðlindirnar eru mjög áberandi. Þetta er allt það sama þannig að hann veit alveg hvað er að gerast og mjög mikið um hvað er að gerast í Árneshreppi.“

Jenkinson er 65 ára gamall og óhætt er að segja að hann eigi sér langa og merkilega sögu. Hann hefur fært hugleiðingar sínar í letur í fjórum bókum sem allar hafa vakið athygli, ekki síst ,,Die Wise: A Manifesto for Sanity and Soul“ en hann var líknarráðgjafi deyjandi fólks í tuttugu ár. „Þá var gerð um hann heimildarmyndin ,,Griefwalker“ þar sem boðskapurinn er sá að við eigum að umfaðma dauðann í stað þess að óttast hann,“ segir Elín Agla.

Elín Agla í hirðingjatjaldinu sem hún reisti nýlega með góðra vina hjálp á Seljanesi á Ströndum.
Fréttablaðið/Stefán

Hún bætir við að á tónleikunum flétti Stephen saman tón- og sagnalist. „Hann segir kynngimagnaðar sögur og vísar jafnt til sögu Íslendinga sem ósamþykktrar sögu Norður-Ameríku og spyr spurninga á borð við: Hvað hefur komið fyrir okkur? Hvernig kom það til að við gleymdum? Hver nærir okkur? Hver er ábyrgð okkar í heiminum? En hann minnir okkur að það hægt að hlæja líka, þrátt fyrir allt.“

Friðarsinnað stórskotalið

Hinar hörðu deilur um fyrirhugaða Hvalárvirkjun í hinum afskekkta og fámenna Árneshreppi hafa verið áberandi undanfarin misseri og enn hitnar í kolunum. „Það má alveg segja að það geisli stríð í Árneshreppi en fyrst og fremst um Árneshrepp,“ segir Elín Agla sem hefur lagt sig fram um að standa utan hinna stríðandi fylkinga en fer þó hvergi leynt með að hún er í liði með náttúrunni.

„Enda kallaði ég bara út stórskotaliðið. Ég bókstaflega hringdi í Steven þegar það urðu miklar vendingar í þessu máli, sagði honum hvað væri að gerast og spurði hvort hann gæti komið, talað um þetta og sagt okkur sögur.

Og ekki stóð á Stephen sem hefur að undanförnu ferðast um veröld víða ásamt hljómsveit sinni, meðal annars um Norður-Ameríku, Ástralíu, Tasmaníu og Evrópu en þetta er þriðja heimsókn hans til Íslands.

Kanadíska kraftaskáldið Stephen Jankinson og hljómsveit halda norður á Strandir á morgun og verða með tónleika í Norðurfirði á föstudagskvöld.

„Hann hefur í tvígang haldið námskeið í Árneshreppi sem hafa laðað að fólk víðsvegar úr heiminum,“ segir Elín Agla. „Hann kom með 80 manns í fyrra frá Bretlandi á fimm daga námskeið en nú er hann að túra með hljómsveitinni og að þessu sinni eru fjórir úr bandinu með í för.“

„Stephen er mesta kraftaskáld og umbreytingarafl sem ég þekki, skrifar bækur og heldur fyrirlestra úti um allan heim. Hann mun fjalla um sögu okkar frá landnámi til okkar daga, um baráttuna í heiminum sem snýst um ágang í auðlindir jarðar, að græða og rífa á hol jörðina, um stóru átökin og erfiðar hliðar mannlífsins.“

Jenkinson og félagar verða sem fyrr segir í Iðnó í kvöld en troða síðan upp í Norðurfirði föstudaginn 19. júlí og Aratungu mánudaginn 22. júlí. Allir tónleikarnir hefjast klukkan 20.