Svan­hildur Hólm Vals­dóttir er nýjasti gesturinn í pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Svan­hildur, sem er ein reyndasta fjöl­miðla­kona Ís­lands Svan­hildur segir í þættinum alls kyns sögur af ferlinum, meðal annars frá NFS tíma­bilinu, þar sem mikið var um til­raunir:

,,Þetta voru geggjaðir tímar og það er stundum hrein­lega erfitt að halda þræði af því að það var svo margt í gangi. Ein­hvern tíma vorum við Inga Lind í út­sendingu og það var búið að setja upp ljósa­flísar á bak við okkur, marg­nota sem hægt var að nota í ó­líkum þáttum. Það var ekki skipt um sviðs­mynd, heldur bara skipt um lit og svo vorum við ein­hvern tíma að taka við­tal þegar ein flísin dettur af veggnum í beinni út­sendingu. Þetta var að mörgu leyti ekki ó­ska­að­staða, en maðurinn hefur mikla að­lögunar­hæfni og það gerðist mjög margt skemmti­legt á þessum tíma.”

Keypti straujárn í Byko

Svan­hildur rit­stýrði Ís­landi Í Dag á Stöð 2 þegar hrunið skall á. Hún segir í þættinum frá því furðu­lega and­rúms­lofti sem þá var uppi:

,,Við­brögð manns við svona hlutum geta verið furðu­leg. Þegar Geir Haarde hélt ,,Guð Blessi Ís­land” á­varpið sitt fór ég ég í Byko og keypti mér strau­járn. Strau­járnið sem við áttum hafði lent í slysi ári áður, en ein­hverra hluta vegna fannst mér mjög mikil­vægt að kaupa strau­járn þennan dag, áður en allar birgðir í landinu myndu klárast. Það héldu allir að landið myndi lokast og and­rúms­loftið var rosa­lega skrýtið. Ég man hvað það var hljótt alls staðar. Það var eins og fólk héldi niðri í sér andanum og fólk talaði saman í hálfum hljóðum.

Ég keypti dýrasta strau­járnið í búðinni af því að ég var sann­færð um að það kæmu aldrei aftur svona góð strau­járn til landsins. Svo fór ég heim og setti það upp í skáp, þar sem mamma fann það ó­notað tveimur árum seinna. Það er auð­velt að hlæja að þessu núna, en and­rúms­loftið var mjög furðu­legt. Til dæmis náði orðið fæðu­öryggi fót­festu strax eftir hrunið, sem ég man ekki eftir að hafa heyrt mikið notað áður. Fólk var raun­veru­lega hrætt um að landið myndi lokast alveg.”

,,Er þetta ekki bara komið gott”

Svan­hildur segir í þættinum frá því að eftir hrun hafi and­rúms­loftið markast af mikilli reiði og það hafi ekki heillað hana hvernig horft var á hlut­verk fjöl­miðla á þessum tíma:

,,Ég sagði ein­hvern tíma að and­rúms­loftið hafi verið orðið þannig að ef maður væri ekki að lemja fólk með nagla­spítu í beinni væri maður ekki að vinna vinnuna sína. Mér var farið að líða þannig að krafan væri að maður yrði að vera að kag­hýða ein­hvern í beinni út­sendingu, annars væri bara ekkert vit í því. Ég held að það sé sjaldnast leiðin til að ná fram upp­lýstri um­ræðu að leiða fólk á af­töku­stokkinn.

Auð­vitað getur verið gaman að taka við­töl þar sem maður er harður, en það er ekki þannig að sá sem æpi hæst sé mesti töffarinn og lík­legastur til að leiða fram sann­leikanum í málinu. Ég man bara eftir því að hafa farið í gegnum svona við­töl og hugsað ,,Er þetta ekki bara komið gott”. Svo ég á­kvað að hætta og fara að skrifa rit­gerð í lög­fræði sem ég hafði ýtt á undan mér í mörg ár. Maður verður stundum að setja sjálfan sig í for­gang og and­lega líðan. Ég var búinn að hugsa þetta í tals­verðan tíma, en þessi hrun­stemmning hjálpaði mér að taka þessa á­kvörðun.”

Deildi ákveðinni sýn með Bjarna

Svan­hildur tók síðar við sem að­stoðar­manneskja Bjarna Bene­dikts­sonar, sem hún segir að hafi verið skemmti­legt starf:

,,Ef þú myndir spyrja Bjarna myndi hann segja þér að ég væri alls ekki mikil ,,Já-manneskja”. Ég deildi á­kveðinni sýn með honum, en við horfum ekki alltaf á hlutina með sömu augum og það er mjög gott að vera með fólk með sér sem er ó­hrætt við að segja þér hvað því finnst. Mér fannst mjög skemmti­legt að vinna við ráð­gjafa­hlut­verk í stjórn­málum.

Það er mjög gaman að geta haft á­hrif á það hvert hlutirnir fara. Flestir sem eru í stjórn­málum eru þar af því að þeir eru með hug­sjónir og vilja bæta sam­fé­lagið. Það er tæki­færið sem maður fær þegar maður er í þessu starfi.”

Hún hefur ekki enn farið í ADHD greiningu, en segir hér um bil allt benda til þess að niður­staðan yrði af­dráttar­laus:

,,Mér finnst að það sé eigin­lega greining í sjálfu sér að ég hef aldrei farið í greiningu. Ég klára ekki það verk­efni. Maður er bara eins og maður er finnst maður bara vera normið. En svo fór ég með barn í greiningu og var látin fá próf og fleira sem gert er í prófi til að greina of­virkni og at­hyglis­brest.

Og þá sá ég að ég kannaðist við nánast allt í sjálfri mér og komst að þeirri niður­stöðu að mögu­lega væri ég ekki bara svona utan við mig. Ég hef alltaf verið svona, alveg síðan ég var barn. En það var ekki til nafn á þetta þegar ég var barn. Mér gekk vel í skóla, en fékk alltaf sömu um­sagnirnar, að ég væri hvat­vís og talaði mikið. Venju­legir hlutir geta orðið mjög þreytandi fyrir mann þegar heila­starf­semin er svona og ég þarf að hafa mjög mikið skipu­lag á öllu svo það fari ekki allt úr skorðum. En þetta er stundum eins og að vera með bý­flugur í hausnum.”