Raunveruleikastjarnan Kourtney Kardashian og Blink-182 trommuleikarinn Travis Barker giftu sig aftur um liðna helgi.

Parið lét pússa sig saman löglega við afar fámenna athöfn í dómshúsinu í Santa Barbara, Kaliforníu mánuði eftir að þau giftu sig óformlega í Elvis-kapellunni í Las Vegas. Meðal gesta voru móðuramma Kardashian, Mary Jo Campell og faðir Barkers, Randy Barker.

Fjölmiðilinn TMZ birti myndir af parinu í sínu fínasta pússi þar sem þau keyrðu í svörtum blæjubíl með skilti aftan á þar sem stóð: Ný gift og dósir í eftirdragi.

Þá segja fjölmiðlar þar vestra að parið sé að undirbúa stóra brúðkaupsveislu sem haldin verður á Ítalíu á næstu dögum eða vikum.

Parið byrjaði saman í ársbyrjun 2021 og bað Barker, Kardashian október sama ár.